Titringur og erfiðleikar á þingi

Dagskrártillaga felld með 31 atkvæði gegn 29.
Dagskrártillaga felld með 31 atkvæði gegn 29. mbl.is

„Þetta hefur greinilega valdið miklum pirringi, maður sér það sérstaklega á ummælum þingmanna Vinstri grænna,“ segir Einar Mar Þórðarson stjórnmálafræðingur og vísar til niðurstöðu kosningar um frávísunartillögu sem fram fór á Alþingi fyrir helgi.

Líkt og kunnugt er var frávísunartillagan felld með 31 atkvæði gegn 29 en þrír voru fjarverandi. Einar Mar segir ljóst að niðurstaðan auki mjög á þann pirring sem hefur verið innan þingflokks Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs og að þetta muni auka enn frekar þann klofning sem ríkt hefur innan flokksins.

Meðal þeirra sem kusu gegn frávísun voru tveir ráðherrar í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra og Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra, en að auki sögðu Jón Bjarnason og Árni Páll Árnason, fyrrum ráðherrar, einnig nei við atkvæðagreiðsluna.

Einar Mar segist telja að niðurstaðan eigi eftir að hafa áhrif innan Samfylkingarinnar. „Menn greinilega bjuggust ekki við Össuri heim en svo kemur hann óvænt þannig að þetta eykur örugglega pirringinn.“

Hann segist telja það víst að niðurstaðan muni auka enn frekar streituna í ríkisstjórnarsamstarfinu en býst þó ekki við því að stjórnin falli vegna málsins.

Þá hefur Þráinn Bertelsson, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, lýst því yfir að hann telji að Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra eigi að segja af sér. „Þetta undirstrikar það hvað VG er í raun klofinn og það er spurning hvað þetta fólk getur lengi haldið áfram samstarfi [...] Þetta eykur á þá erfiðleika sem fyrir voru.“

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, lýsti því yfir fyrr í dag að hún væri búin að efna til undirskriftalista á Alþingi svo lýsa mætti yfir vantrausti á forseta Alþingis, Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, sem jafnframt kaus gegn frávísunartillögunni. „Þetta er auðvitað mjög sérstakt og það verður forvitnilegt að sjá hvort henni tekst þetta,“ segir Einar Mar en hann kveðst þó ekki eiga von á því að Birgittu takist að safna nægum undirskriftum.

„Maður finnur og sér það á þinginu að þetta virðist valda miklum titringi og erfiðleikum. Þarna eru greinilega tilfinningar í gangi sem reynast fólki erfiðar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert