Enn stjórnlaust í Kópavogsbæ

Þótt enginn sé meirihlutinn þarf enn að stýra bæjarfélaginu. Síðdegis …
Þótt enginn sé meirihlutinn þarf enn að stýra bæjarfélaginu. Síðdegis í gær var haldinn fundur í bæjarstjórn Kópavogs. mbl.is/Árni Sæberg

Nýr meirihluti hefur enn ekki verið myndaður í Kópavogi. Bæjarfulltrúar tala um snúna stöðu, tillaga hefur komið upp um samstarf allra flokka og bæjarstjóranum hefur enn ekki verið sagt formlega upp störfum, þrátt fyrir að henni hafi verið tilkynnt fyrir tæpum tveimur vikum að hún nyti ekki lengur trausts.

Framsókn bíður á hliðarlínunni og bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar hafa látið neikvæð orð falla um mögulegt samstarf við Sjálfstæðisflokkinn við litla hrifningu þeirra síðarnefndu.

„Þetta er snúin staða,“ segir Hafsteinn Karlsson, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar, en flokkurinn hefur lýst yfir bandalagi við VG. „Bæjarstjórnin er stefnulaus eins og hún er nú.“ Hann segir viðræður við Sjálfstæðisflokkinn liggja beinast við, en á fundi Samfylkingarinnar í Kópavogi í fyrradag var talað um Sjálfstæðisflokkinn sem slæman kost.

Í fréttaskýringu um stöðuna í Kópavogi segir Hafsteinn að margir úr baklandi Samfylkingarinnar telji viðræður við Sjálfstæðisflokkinn vera það eina í stöðunni. Fulltrúar Samfylkingarinnar í bæjarstjórn sögðu í samtali við Morgunblaðið í gær að samstarf við Sjálfstæðisflokkinn væri neyðarúrræði og töluðu um hrylling og þung spor í því sambandi.

„Mér finnst þetta ótrúleg framkoma í garð stjórnmálaflokks sem á sama tíma er verið að bjóða upp í dans. Það kann ekki góðri lukku að stýra að ætla að koma á farsælu samstarfi með slíku hátterni,“ segir Ármann Kr. Ólafsson, oddviti sjálfstæðismanna. „Ef fólk ætlar að fara inn í svona samstarf, þá þarf því að líða vel. Fólk þarf að vera glatt í hjarta sínu og tilfinningin þarf að vera fín.“

Leiðrétting frá Hafsteini Karlssyni, bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar í Kópavogi:

Í fréttaskýringu í Morgunblaðinu í dag er sagt að bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar í Kópavogi hefðu sagt í samtali við Morgunblaðið í gær „að samstarf við Sjálfstæðisflokkinn væri neyðarúrræði og töluðu um hrylling og þung spor í því sambandi.“

„Hér er ekki rétt haft eftir,“ segir Hafsteinn. „Þessir tveir flokkar eiga sér vissulega sína sögu í bænum og á stundum tekist harkalega á, en það er ekki þar með sagt að fyrri ágreining þessara tveggja flokka sé ekki hægt að jafna.  Þótt oft hafi blásið hraustlega hafa þessir flokkar m.a. unnið sameiginlega að gerð fjárhagsáætlunar í þrígang og gekk það afar vel.  Nú er tími til þess að horfa fram á við í stað þess að dvelja við fortíðina. “

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert