Ófærð í fyrramálið

Hætt er við að ófærð verði suðvestanlands í nótt og …
Hætt er við að ófærð verði suðvestanlands í nótt og fyrramálið og mikilvægt að fólk fylgist vel með fréttum. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Ef veðurspár ganga eftir verður mikil ófærð á landinu í nótt og fyrramálið, einnig í þéttbýlinu á suðvesturhorninu. Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur bendir á þetta á vef sínum í kvöld. Eftir mikla snjókomu síðustu daga sé hætt við talsverðu fjúki og kófi ef vindur nær 8-10 m/s.

Á vefnum birtir Einar spákort þar sem sjást þrjár lægðarmiðjur, nokkurn veginn í línu NNA yfir landið. Segir hann norðanvindstrenginn vestan þessara lægðamiðja heldur óárennilegan. Gildir kortið fyrir miðnætti í kvöld.

Á Vestfjörðum og við Breiðafjörð verður vindur nærri stormstyrk (20 m/s) og 13 til 20 m/s suðvestanlands, hvað hvassast á Suðurnesjum.

„Ef þetta gengur eftir verður mikil ófærð og líka í þéttbýlinu hér suðvestanlands í fyrramálið. Lausamjöllin er eins og allir vita umtalsverð eftir snjókomuna undanfarna daga. Um leið og vindur nær 8-10 m/s fer að skafa og talsvert fjúk og kóf verður þegar vindur nær 12-13 m/s. Hvort verður ofankoma eða ekki með þessu skiptir kannski ekki meginmáli, heldur skiptir veðurhæðin mestu upp á skafrenning og skaflamyndun,“ ritar Einar í bloggi sínu.

Ófærð kringum Flugstöðina

Þá segir Einar jafnframt að ófærð geti orðið tilfinnanleg á svæðinu kringum Flugstöðina á Keflavíkurflugvelli. „Reyndar er það svo að lítið skjól er að hafa á höfuðborgarsvæðinu fyrir N- og NNV-átt, aðeins snýst þetta um hversu vel strengurinn nær inn á land við innanverðan Faxaflóa og austur fyrir fjall. Það á líka við um Borgarfjörð og við Akranes.

Húsagötur eru flestar við það að vera orðnar ófærar suðvestanlands, ef þær eru það ekki þegar. Því þarf í raun lítið að versna eða bæta í svo þær verði kolófærar,“ segir Einar að endingu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert