„Lífeyrissjóðakerfið byggist á braski“

Ögmundur Jónasson í Kastljósi í kvöld.
Ögmundur Jónasson í Kastljósi í kvöld. Mynd/ruv.is

 „Lífeyrissjóðakerfið byggir á braski,“ sagði Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra sem svaraði í Kastljósi Ríkisútvarpsins í kvöld fyrir stöðu sína í stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Ögmundur sagði ekkert ólöglegt hafa verið gert en menn hefðu ekki átt annarra kosta völ en að braska með fjármuni.

Ögmundur sagði að það sem gerst hefði hjá lífeyrissjóðunum hefði verið, að þeim var gert að fjárfesta í íslenskum félögum skráðum á markaði. Það hafi verið íslensku bankarnir og fleiri í þeim dúr. Þegar þessi fyrirtæki hrundu urðu sjóðirnir fyrir skakkaföllum.

Hann sagði að hugsanlega hefðu sjóðirnir getað farið með meiri hluta fjármuna sinna til útlanda, en benda megi á það, að þar hafi einnig orðið hrun.

Þá sagði Ögmundur, að skoða þyrfti málið í víðara samhengi. Lífeyrissjóðirnir högnuðust verulega á árunum fyrir hrun. „Ef þú kaupir hlutabréf á hundrað krónur sem svo hækka upp í þúsund krónur. Hvort tapar þú hundrað krónum eða þúsund krónum?“ spurði Ögmundur þáttarstjórnanda Kastljóss, Helga Seljan, en svaraði sjálfur: „Samkvæmt bókhaldi tapar þú þúsund krónum. En það verður að skoða þetta í þessu samhengi.“

Ögmundur sagðist sannfærður um að Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins hefði farið að lögum í einu og öllu, en hefði engu að síður verið að braska með fjármuni. „Allt kerfið var að braska,“ sagði Ögmundur og bætti við að hann hefði verið sá eini á Alþingi sem mótmælt hefði lagarammanum sem settur var og samþykktur í kringum lífeyrissjóðina. „Ég sagði á þingi að þetta væri stórkostlega hættulegt, að setja þá í þessa braskstöðu.“

„Spilabúllan“ Ísland hrundi

Ögmundur skýrði það svo að með lagarammanum sem samþykktur var á þingi hefði lífeyrissjóðunum verið gert að fara á markað og leita eftir hámarksávöxtun. „Við settum lífeyrissjóðina út á markað og létum þá braska með peninga.“ Hann sagði starfsmenn sjóðanna hefðu ekki átt neinna annarra kosta völ. „Það var ekkert ólöglegt sem gert var, en þegar spilabúllan Ísland hrundi urðu lífeyrissjóðirnir fyrir skakkaföllum.“

Að endingu sagði Ögmundur að taka þyrfti lífeyrissjóðakerfið til endurskoðunar og þingmenn að velta fyrir sér hvort þeir vildu hafa þá áfram í þessu kerfi sem gengi út á brask.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert