„Ofbeldi og valdníðsla“

Árni Johnsen á Alþingi.
Árni Johnsen á Alþingi. mbl.is/Ómar

„Ofbeldi og valdníðsla,“ sagði Árni Johnsen, þingmaður Sjálfstæðisflokks, á Aþlingi í dag þegar hann ræddi um mál Snorra Óskarssonar, grunnskólakennara á Akureyri, sem sendur hefur verið í leyfi vegna ummæla sinna um samkynhneigða. Árni sagði þetta vera árás á Snorra að undirlagi Samfylkingarinnar.

Umræða stóð um störf þingsins þegar Árni kvaddi sér hljóðs. Hann sagði Íslendinga státa af trúfrelsi og tjáningarfrelsi og því bæri að harma niðurstöður bæjarstjórnar Akureyrar sem hefði „ráðist á opinberan starfsmann og rekið hann úr starfi“.

Þetta sagði Árni nýtt á Íslandi og svo virtist sem um væri að ræða „samfylkingarárás“. Hann sagði málið ekki hafa verið rætt í Brekkuskóla þar sem Snorri starfar og þar hefði ekkert vandamál verið. „Sá sem stendur fyrir árásinni er varaþingmaður Samfylkingarinnar,“ sagði Árni og bætti við að um væri að ræða spurningu um mannréttindi, virðingu fyrir skoðanafrelsi og virðingu fyrir trúfrelsi á Íslandi.

Þá sagði Árni að ef kennarar keyrðu ekki á sínum skoðunum innan skólans, heldur aðeins utan hans, ætti ekki að vera hægt að sækja þá til saka. Hann sagði Snorra vel virtan kennara til margra ára sem væri vel liðinn af nemendum sínum. „Þetta er ofbeldi sem þarf að stöðva,“ sagði hann og bætti við að Íslendingar ættu ekki elta öfl utan úr heimi sem krefðust sérreglna fyrir hina og þessa hópa.

Samkvæmt heimildum mbl.is var töluvert um það að þingmenn gengju úr salnum undir ræðu Árna. Þannig var Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokks, ekki í salnum þegar Árni lauk máli sínu en hann var næstur á mælendaskrá. Ekki er þó vitað hvort það hafi endilega tengst ræðu Árna. Tók þá Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti þingsins, ákvörðun um að enda umræðuna.

Snorri Óskarsson
Snorri Óskarsson mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert