Snýst eingöngu um afturvikni

Hæstiréttur klofnaði í málinu. Fjórir dómarar dæmdu hjónunum í vil …
Hæstiréttur klofnaði í málinu. Fjórir dómarar dæmdu hjónunum í vil en þrír bankanum. mbl.is / Hjörtur

Dómur Hæstaréttar um gengistryggðu lánin hefur einvörðungu áhrif á þá vexti sem greiddir voru af láninu frá því það var tekið þar til Alþingi setti lög um málið í desember 2010. Lánin bera óverðtryggða vexti Seðlabanka Íslands frá þeim tíma.

Hjónin sem höfðuðu málið höfðu greitt upp gengistryggða lánið sem um var deilt. Ágreiningurinn stóð um hvernig ætti að reikna vexti frá þeim tíma sem lánið var tekið þar til Alþingi breytti lögunum. Bankarnir höfðu miðað við óverðtryggða vexti Seðlabanka Íslands enda höfðu Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið mælt með því.

Niðurstaða meirihluta Hæstaréttar var hins vegar að miða ætti við Libor-vexti sem voru 2-5% á þessum tíma. Þó að meirihluti Hæstaréttar geri athugasemd við lögin sem Alþingi setti árið 2010 standa þau óbreytt varðandi þau lán sem enn eru ógreidd og lántakendur eru að borga af.

Mjög mörgum af þeim gengistryggðu lánum sem einstaklingar og fyrirtækin tóku fyrir hrun hefur verið breytt í íslenskar krónur. Þegar þetta var gert þurfti að endurreikna lánin og þá skipti auðvitað vaxtaprósentan meginmáli. Nú þarf að endurreikna lánin út frá nýrri forsendu.

Það getur verið misjafnt hversu miklu þessi endurreikningur skilar lántakanum. Þar skiptir mestu máli hvenær lánið var tekið. Þeir fá t.d. meira sem tóku lán 2005, en þeir sem tóku lán 2008 vegna þess að lánið er búið að standa lengur á þessum lágu óverðtryggðu vöxtum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert