Vilja leggja heræfingar af

Heræfing á Suðurlandi
Heræfing á Suðurlandi mbl.is/Golli

Flokksráð VG samþykkti á fundi sínum í dag að skora á ráðherra flokksins að vinna að því að leggja af heræfingar Atlantshafsbandalagsins hér á landi. Þetta er meðal þess sem kemur fram í ályktun sem samþykkt var á flokksráðsfundi VG í dag.

„Flokksráð VG áréttar að flokkurinn skuli ávallt, á vettvangi ríkisstjórnar eða á annan hátt, berjast gegn hernaðaraðgerðum eða hernaðaríhlutun. Auk þess lýsir flokksráðið andstöðu sinni við heræfingar NATO-ríkja hér á landi og skorar á ráðherra flokksins að vinna að því að leggja þær af.“

Lýsa yfir áhyggjum af Tíbet

„Flokkráðsfundur Vinstri grænna, haldinn að Grand hóteli, Reykjavík, 24. og 25. febrúar  lýsir áhyggjum vegna stöðu Tíbets og ítrekaðra mannréttindabrota gagnvart tíbetsku baráttufólki og krefst þess að kínversk stjórnvöld taki upp opinberar friðar- og samningaviðræður við tíbetsku útlagastjórnina,“ segir í ályktun sem einnig var samþykkt í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert