Vill áframhaldandi viðræður við ESB

Sigsteinn P. Grétarsson, aðstoðarforstjóri Marels á Iðnþingi 2012
Sigsteinn P. Grétarsson, aðstoðarforstjóri Marels á Iðnþingi 2012 Ljósmynd/Samtök iðnaðarins

Sigsteinn P. Grétarsson, aðstoðarforstjóri Marels, kynnti starfsemi fyrirtækisins á Iðnþingi í dag, en fyrirtækið sérhæfir sig í að leysa úr tæknimálum fyrir framleiðslu og vinnslu á kjúklingum, fiski og kjöti.

Sigsteinn sagði hægt að skipta heiminum í tvennt í markaðssetningu. Annarsvegar þróaðir markaðir sem væri rúmlega helmingur markaðarins og hinsvegar nýir markaðir sem væru að vaxa ört.

Fyrirtækið hefur komið sér vel fyrir í Brasilíu, sem er 7. stærsta hagkerfi heims. Í Rússlandi, sem er 6. stærsta hagkerfi heims sé Marel einnig með aukna starfsemi. Þá væri fyrirtækið í sókn á Indlandi sem er 4. stærsta hagkerfi heimsins og að þar væri innflutningur á kjúklingi stöðugt að aukast. Nefndi hann sem dæmi að ef Indverjar myndu auka neyslu á kjúklingi um 1 kg á ári myndi sú aukning nema allri neyslu Þjóðverja á einu ári. Þá nefndi Sigsteinn aukin umsvif Marels í Kína.

Sigsteinn sagði að um leið og fólk eignaðist peninga þá skipti það út hrísgrjónum fyrir prótein og að þeir stíluðu inn á það í sinni sókn.

Á hlutabréfamarkaði í 20 ár

Marel hefur verið í 20 ár á hlutabréfamarkaði og Sigsteinn sagðist hafa áhyggjur af því að í dag væru álíka stór fyrirtæki ekki að koma inn á markaðinn, en hann sagðist vona að það yrði breyting á því.

Sigsteinn sagði að á bak við Marel væru yfir 40 íslensk iðnfyrirtæki auk þjónustufyrirtækjanna sem fyrirtækið starfar með og sagði hann árangur þeirra byggjast á þessu samstarfi.

Sigsteinn sagði Marel ótrúlega heppna að hafa Icelandair til staðar og að Marel væri lang best tengt inn á Bandaríkin af sambærilegum fyrirtækjum í Evrópu.

Hann sagði ákveðin ljón í veginum fyrir starfi þeirra og nefndi gjaldmiðilinn. Hann sagði að vera með krónuna væri eins og að vera í fúnum trérússíbana og sagði það stórhættulegt.

Mikilvægt að halda áfram viðræðum við ESB

Sigsteinn sagði mjög mikilvægt að halda áfram viðræðum við Evrópusambandið og loka ekki á þá möguleika. Hann nefndi gjaldeyrishöftin og sagði að þau kæmu ekki beint niður á stórfyrirtæki eins og Marel en sagði þau torvelda mörgum minni fyrirtækjum.

Hann sagði að þeir finndu fyrir því að íslenskur sjávarútvegur væri ekki að fjárfesta mikið í óvissunni sem nú ríkir með sjávarútvegskerfið, en að þeir væru að selja mikið af tæknibúnaði til samkeppnislanda okkar.

Sigsteinn sagði skort á tæknimenntuðu fólki og að gera þyrfti átak í því að efla áhuga fólks á tækninámi og nefndi fólksflóttann og sagði það slæmt að vel menntað fólk færi úr landi og af vinnumarkaði hér.

Sigsteinn nefndi að stöðugar breytingar á skattkerfinu væri stórt ljón í veginum og að erlendir kollegar hans skildu ekki hvernig þetta væri hægt og að þessar miklu skattkerfisbreytingar væru að fæla fjárfesta frá.

Pallborðsumræður að loknum erindum

Að loknu erindi Sigsteins fóru fram pallborðsumræður á þinginu sem Orri Hauksson stýrði. Þátttakendur voru Jón Daníelsson, hagfræðiprófessor, Sigsteinn P. Grétarsson, aðstoðarforstjóri Marels, Rannveig Rist, forstjóri Alcan á Íslandi og Svana Helen Björnsdóttir, nýkjörinn formaður Samtaka iðnaðarins.

Þátttakendur í pallborði á Iðnþingi 2012
Þátttakendur í pallborði á Iðnþingi 2012 Ljósmynd/Samtök iðnaðarins
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert