Yfirlýsing Geirs H. Haarde

Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, gaf frá sér stutta yfirlýsingu þegar réttarhöldunum fyrir Landsdómi lauk þegar klukkan var rétt ríflega hálfþrjú síðdegis. Geir segir marga þá sem stóðu að réttarhöldunum hafa orðið fyrir vonbrigðum. Hann vill að Landsdómur fái frið á næstu vikum.

Orðrétt sagði Geir sem talaði blaðalaust:

„Það sem ég vil segja núna er það að ég er mjög feginn að þessum þætti málsins er lokið. Og ég er þakklátur mínum verjanda og hans fólki fyrir þeirra framgang í þessum málaferlum. Nú tekur dómstóllinn málið í sínar hendur og leggur mat á hvort ég hafi framið refsiverð afbrot í mínum störfum. Það er það sem þetta mál snýst um og ekkert annað. Ég treysti þessum dómstóli fyllilega til þess að ráða fram úr því.

En ég vil jafnframt skora á alla - og þá ekki síst ykkur fjölmiðlamennina - að gefa dómstólnum frið til að vinna sín störf. Ég tel að þetta ferli sem hefur átt sér stað hér í Þjóðmenningarhúsinu hafi verið mjög lærdómsríkt. Það hefur verið fróðlegt að fylgjast með vitnaleiðslunum og málflutningi sækjanda og verjanda. En ég geri ráð fyrir því að ýmsir sem stóðu að þessum ákærum og þessum réttarhöldum hafi orðið fyrir miklum vonbrigðum með margt af því sem hér hefur komið fram.

Og ég mun bíða úrslita þessa máls alveg ókvíðinn. Ég er saklaus af þessum ákæruliðum öllum saman og ég er bjartsýnn hvað varðar niðurstöðu dómsins. Ég mun svo hitta ykkur öll þegar að dómurinn verður upp kveðinn og kannski tala þá við ykkur í lengra máli.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert