Vel viðrar á yngismannadegi

Veðrið hefur verið nokkuð rysjótt undanfarið. Suma morgna hefur fólk …
Veðrið hefur verið nokkuð rysjótt undanfarið. Suma morgna hefur fólk vaknað við sólskin og stillt veður að morgni en sofnað að kvöldi við snjókomu og hávaðarok. Engan skal því undra þó fólk treysti því ekki að veðrið haldist frá einni stund til annarrar, en góðviðris er að vænta á næstu dögum. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Þó að lóan sé komin og eigi að kveða burt snjóinn, þá er fulldjúpt í árinni tekið að segja að vorið sé komið. Það vantar svolítið upp á. En það eru að koma nokkrir dagar sem verða mjög góðir,“ segir Óli Þór Árnason, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, en í dag er jafndægur á vori.

„Við finnum að þegar sólarinnar nýtur, þá kemur sólbráð og það er farið að  vera bjart fram á kvöld. Þannig að það styttist í þetta,“ segir Óli Þór.

Í dag er fyrsti dagur einmánaðar, sem er sjötti mánuður ársins í gamla norræna tímatalinu og síðasti vetrarmánuðurinn. Hann hefst á þriðjudegi í 22. viku vetrar, á milli 20. og 26. mars. Dagurinn í dag er víðast kallaður yngismannadagur og er helgaður piltum eins og harpa er tileinkuð stúlkum og þorri og góa húsbændum og húsfrúm. Áttu stúlkur þá að fara fyrstar á fætur til að taka á móti einmánuði og gleðja piltana.

Óli Þór segir að næsta helgi; föstudagur, laugardagur og sunnudagur verði hlýir og góðir. „Sunnan og vestan verður smá bleyta með af og til. Líklega verður nánast þurrt á Norður- og Austurlandi, a.m.k. lengst af. Það skiptir máli í svona hlýindum að hafa vind, hann rekur í burtu kalda loftið sem er ofan í dölunum fyrir norðan og austan. Ef það næst að reka kalda loftið út,  þá verður mun hlýrra þar en á höfuðborgarsvæðinu.“

Óli Þór segir spár benda til þess að á föstudaginn verði hlýjast á Norðvesturlandi, og að Norður- og Austurland muni líklega hafa vinninginn um helgina. „En við erum samt að tala um mjög gott veður um allt land, 7-10 stiga hita sunnan- og vestanlands og 8-12 stig víða fyrir norðan og austan. Ef við verðum sérlega heppin gæti hitinn stigið upp í 15 á Norður- og Austurlandi.“

Síðan er búist við því að suðvestanáttin láti á sér kræla á nýjan leik eftir helgi og að þá fari veður smám saman kólnandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert