Samningamaðurinn í makríldeilunni hættur

Tómas H. Heiðar.
Tómas H. Heiðar. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Fram kom í máli Jóns Bjarnasonar, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, á Alþingi í kvöld að Tómas H. Heiðar, sem verið hefur aðalsamningamaður Íslendinga í makríldeilunni, hefði verið látinn hætta sem slíkur. Sagðist Jón hafa nokkrar áhyggjur af þessu enda hefði Tómas staðið sig vel bæði í makríldeilunni og í hvalveiðimálum. Beindi Jón þeirri fyrirspurn til Katrínar Jakobsdóttur, starfandi sjávarútvegsráðherra, hverju þetta sætti.

Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, brást við ummælum Jóns með því að velta því fyrir sér hvort Tómas hefði ef til vill verið látinn hætta af sömu ástæðu og Jón sjálfur hefði verið látinn hætta sem sjávarútvegsráðherra. Vegna Evrópumálanna.

Í samtali við mbl.is í kvöld sagði Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, að skýringin á þessu væri sú að samningur hefði verið í gildi á milli utanríkisráðuneytisins og sjávarútvegsráðuneytisins um lán á Tómasi til sjávarútvegsráðuneytisins vegna makríldeilunnar. Sá samningur hefði runnið út fyrir skömmu síðan.

Steingrímur sagði málið ekkert tengjast makríldeilunni sem slíkri eða góðum störfum Tómasar. Aðspurður hvort einhver hefði verið skipaður í stað Tómasar sagði Steingrímur að nú væri ákveðið hlé í þessum málum og væntanlega hæfust samningaviðræður ekki aftur fyrr en næsta haust um makrílinn þannig að það væri tími til stefnu til þess að ákveða með hvaða hætti þessum málum yrði fyrirkomið.

Steingrímur bætti því við að Jón Bjarnason hefði sem fyrrverandi sjávarútvegsráðherra átt að vita af áðurnefndum samningi á milli ráðuneytannna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert