Lungnakrabbamein algengara hjá íslenskum konum

Krabbameinsrannsóknir.
Krabbameinsrannsóknir. mbl.is

Dánartíðni kvenna af völdum lungnakrabbameins er hærra hér á landi en í OECD-löndunum og löndum Evrópusambandsins. Hjá körlunum er þessu öfugt farið og dánartíðnin töluvert lægri hér á landi. Þetta kemur fram í uppfærðu yfirliti yfir heilsu- og gæðavísa.

Landlæknir birtir á vefsvæði sínu uppfært yfirlit yfir heilsu- og gæðavísa. Tölfræðin er fengin úr gagnasafni OECD og Health at a Glance-skýrslum OECD frá 2010 og 2011. Þess ber að geta að viðmiðunarár gagna er 2009 eða að öðrum kosti nýjustu fáanlegar tölur fyrir árin þar á undan.

Ýmislegt athyglisvert kemur fram í yfirlitinu. Þannig er dánartíðni íslenskra kvenna úr lungnakrabbameini 36 á hverja 100.000 íbúa en hjá körlum 37 á hverja 100.000 íbúa. Þegar skoðuð er sama tíðni fyrir OECD-löndin kemur í ljós að dánartíðni kvenna af völdum lungnakrabbameins er 20 á hverja 100.000 íbúa, og í löndum ESB eru það 19 á hverja 100.000 íbúa.

Þegar skoðuð er dánartíðni karlmanna í OECD-löndunum af völdum lungnakrabbameins sést að hún er 52 á hverja 100.000 íbúa og í ESB-löndunum 66 á hverja 100.000 íbúa.

Gríðarleg notkun þunglyndislyfja

Þá má sjá á yfirlitinu að notkun þunglyndislyfja er gríðarleg hér á landi borið saman við meðaltal OECD-landanna. Samkvæmt yfirlitinu eru notaðir hér á landi 98,3 skilgreindir dagskammtar þunglyndislyfja á hverja 1.000 íbúa á dag. Í OECD-löndunum eru það hins vegar aðeins 52,5 dagskammtar á hverja 1.000 íbúa.

Þá má sjá að hlutfall fullorðinna sem þjást af offitu er 20,1% hér á landi en 16,9% í OECD-löndunum. Hlutallið er enn lægra í löndum ESB, 15,5%. Er þá miðað við að líkamsþyngdarstuðull (BMI) sé yfir 30.

Á vefsvæði landlæknis segir að heilsuvísar séu skilgreindir mælikvarðar sem varpi ljósi á árangur og afköst í heilbrigðisþjónustu svo og nýtingu fjárframlaga til heilbrigðismála. Þá megi nýta þá til þess að bera lönd saman hvað þessa þætti varðar. Með gæðavísum er leitast við að varpa ljósi á gæði heilbrigðisþjónustunnar.

Hins vegar er tekið fram, að við samanburð á alþjóðlegri tölfræði beri alltaf að slá þann varnagla að nokkur munur geti verið á skilgreiningum sem að baki liggja. Því sé mikilvægt að líta á skilgreiningar þegar rýnt er í slíkar tölur og lönd borin saman.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert