Krefjast þess að fá að sjá gögnin

Seðlabankinn lét gera húsleit hjá Samherja á Akureyri.
Seðlabankinn lét gera húsleit hjá Samherja á Akureyri. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Lögmenn Samherja hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem segir að það sé rangt sem  Seðlabanki Íslands hafi haldið fram að stjórnendum Samherja hf. hafi verið kynntar ástæður húsleitar hjá fyrirtækinu þriðjudaginn 27. mars sl. Lögmenn Samherja hafa lagt fram kröfu hjá Héraðsdómi Reykjavíkur um afhendingu gagnanna.

Stefán Jóhann Stefánsson, upplýsingafulltrúi Seðlabankans, sagði í samtali við Morgunblaðið að húsleitirnar í síðustu viku hefðu verið framkvæmdar vegna gruns um brot á ákvæðum gjaldeyrislaga og að aðilum hefðu verið kynntar ástæður húsleitar við upphaf hennar.

Í yfirlýsingu sem Ólafur Rúnar Ólafsson, lögmaður Samherja, sendi frá sér segir:

„Við húsleitina framvísaði Seðlabankinn húsleitarúrskurðum þar sem það eitt kom fram að grunur væri um brot gegn lögum um gjaldeyrismál, án þess að tilgreint væri í hverju meint brot felast eða þeim lýst á nokkurn hátt. Lögmenn Samherja frá LEX og PACTA lögmönnum, sem mættir voru á vettvang strax við upphaf húsleitar leituðu ítrekað eftir því á vettvangi að upplýst yrði um með hvaða háttsemi talið væri að Samherji hefði brotið gegn lögunum. Seðlabankinn hefur staðfastlega neitað að upplýsa hvaða háttsemi Samherja það er sem Seðlabankinn telur brot gegn gjaldeyrislögum. Þar sem Samherji telur sig í einu og öllu fara að lögum í starfsemi sinni, getur félagið ekki brugðist við ásökunum þessum í starfsemi sinni.

Lögmenn Samherja afhentu þegar á hádegi, þriðjudaginn 27. mars, Seðlabankanum formlega kröfu um afhendingu þeirra gagna sem Seðlabankinn fékk húsleitarheimild sína eftir hjá héraðsdómi. Telja verður að þau gögn kunni að varpa ljósi á í hverju hin meintu lögbrot eiga að felast. Sú beiðni var ítrekuð með bréfi 29. mars. Seðlabankinn hefur ekki afhent þau gögn né veitt stjórnendum eða lögmönnum Samherja hf. upplýsingar um ástæður aðgerða Seðlabankans. Í gær lögðu lögmenn Samherja inn kröfu hjá Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem krafist er afhendingar gagna þeirra sem Seðlabankinn framvísað við dómara vegna húsleitarúrskurðarins, þar sem bankinn hefur ekki svarað kröfum um afhendingu gagna og því síður fært rök fyrir því hvers vegna nauðsynlegt sé að halda þeim gögnum frá Samherja. Krafan verður væntanlega tekin fyrir í héraðsdómi innan skamms.“

Helgi Jóhannesson, hrl. hjá Lex, hefur einnig sent frá sér yfirlýsingu sama efnis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert