Páskaeggin virðast ómissandi

Tugir páskaeggja á færibandi.
Tugir páskaeggja á færibandi. Mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Hundruð þúsunda af súkkulaðieggjum eru framleidd hér á landi fyrir hverja páska. Páskaegg virðist vera eitt af því sem fólk heldur áfram að leyfa sér því sala á þeim hefur lítið dregist saman í kreppunni að sögn framleiðenda og jafnvel þvert á móti.

Finnur Geirsson, forstjóri Nóa-Siríusar, segist ekki hafa nákvæma tölu yfir hversu mörg páskaegg þar eru framleidd en þau séu fleiri en eitt á hvern einasta Íslending. „Þetta eru æði mörg egg, ábyggilega eitt egg á mann en þau eru af svo mörgum stærðum og gerðum að ef við tökum þessi minnstu með er það örugglega meira en eitt á mann.“

Minna keypt af stærstu eggjunum

Nói framleiðir álíka mikið af eggjum í ár og í fyrra. Finnur segir að litlar sveiflur hafi orðið í sölunni frá árinu 2008, hins vegar séu talsverðar sveiflur í hvaða tegund eggja er vinsælust. „Við náttúrlega vitum ekki hvernig þetta verður fyrr en upp er staðið eftir páska, þannig að við rennum svolítið blint í sjóinn. En aðalbreytingin er sú milli stærða. Það selst minna af stærri eggjum núna, en meira af minni eggjum.“

Páskaeggin eru farin að sjást í hillum verslana nokkrum vikum fyrir páska, en að sögn Finns ræður síðasta vikan úrslitum því langmesta salan í páskaeggjum sé síðustu dagana fyrir páska. Sömu sögu segir Ævar Guðmundsson, eigandi sælgætisgerðarinnar Freyju. „Það byrjaði í gær og má alveg segja að það verði sprengja í sölunni þessa síðustu daga. Fólk er á leið í sumarbústaðinn og kaupir sér páskaegg á leiðinni.“

Aukning síðustu fjögur árin

Freyja fór inn á páskaeggjamarkaðinn fyrir fjórum árum og að sögn Ævars hefur verið stöðug aukning milli ára. Þessa páska er gert ráð fyrir að um 15% meira seljist af páskaeggjunum en í fyrra. Ævar segir að miðlungsstóru eggin, sem eru 500 g að þyngd, séu vinsælust. 

Samkvæmt hefðinni á ekki að snerta við páskaeggjunum fyrr en á sjálfan páskadag og virðast margir halda í þá hefð. Fólk virðist þó óhrætt við nýjungar í páskaeggjum því eggjunum þar sem skeljarnar eru með lakkrískurli eða hrís, en ekki bara hreinu súkkulaði, hefur verið vel tekið. 

Börnunum hjálpað að hreinsa tennurnar

Þótt það sé um að gera að gera vel við sig í páskafríinu og gæða sér á góðu páskaeggi er ástæða til að minna á að eggin, og ekki síður það sem inni í þeim leynist, inniheldur mikinn sykur og karamellur og annað getur fest í tönnunum. 

Stundum er verið að maula eggið jafnt og þétt með hléum en samkvæmt upplýsingum frá Lýðheilsustöð ber að varast að láta tennurnar vera baðaðar í sýrubaði sykursins allan daginn. Því getur verið gott að bursta tennur inn á milli yfir daginn og aðstoða börnin við að hreinsa nammiklístrið milli tannanna með tannþræði.

Ekki má gleyma málshættinum enda stór hluti af ánægjunni við …
Ekki má gleyma málshættinum enda stór hluti af ánægjunni við að opna eggið og mikilll metnaður er lagður í málsháttina. Mbl.is/Ernir Eyjólfsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert