Vill fara í tvær virkjanir í Þjórsá

Búðafoss í Þjórsá.
Búðafoss í Þjórsá. Rax / Ragnar Axelsson

Eggert Valur Guðmundsson, bæjarfulltrúi í Árborg, segist ekki sjá að verið sé að taka neina áhættu þó heimilt verði að ráðast í tvær efstu virkjanir í neðrihluti Þjórsá, Hvamms-og Holtavirkjanir. Hann lagði fram ályktun þessa efnis í bæjarstjórn.

Stjórnarflokkarnir hafa lagt fram Rammaáætlun þar sem gert er ráð fyrir að þrjár rennslisvirkjanir í neðri hluta Þjórsár verði settar í biðflokk, en upphaflega var lagt til að þær færu í nýtingarflokk.

Eggert, sem er samflokksmaður Oddnýjar Harðardóttur, starfandi iðnaðarráðherra, segist vera mjög ósáttur við þessa breytingu. Hann segist hafa bundið vonir við að ráðist yrði í virkjanir í Þjórsá sem fyrst.

Í ályktun sem Eggert lagði fram í bæjarráði Árborgar er skorað á Alþingi að tryggja að fyrirhugaðar  tvær efstu virkjanahugmyndir í neðri Þjórsá, Hvamms-og Holtavirkjanir, verði áfram skilgreindar í nýtingarflokki Rammaáætlunar um nýtingu og vernd náttúrusvæða.

„Ljóst er að efasemdir um afdrif og framtíð laxastofnsins í Þjórsá vegna virkjanaframkvæmda eiga einungis við um Urriðafossvirkjun. Ekkert er því til fyrirstöðu að hefja framkvæmdir við Holta-og Hvammsvirkjanir.
Fyrirhugaðar framkvæmdir við virkjanir í neðri Þjórsá skipta miklu máli við að auka atvinnustig á Suðurlandi öllu. Það er er einbeittur vilji sveitarfélaga á svæðinu að skilgreindur hluti orkunnar verði nýttur til fullvinnslu á svæðinu. Því er það gríðarlega mikilvægt fyrir svæðið allt að framkvæmdir fari af stað sem allra fyrst.
Tillaga verkefnastjórnar um Rammaáætlun um nýtingu og vernd náttúrusvæða kemur nú til kasta Alþingis. Þar verður unnið úr umsögnum um einstaka kosti áður en þingmenn afgreiða Rammaáætlun endanlega. Hvetur bæjarráð Svf Árborgar þingmenn eindregið til þess að fara að tillögu verkefnastjórnarinnar sem vann drög að Rammaáætlun um að tvær efstu virkjanir í neðri Þjórsá verði áfram skilgreindar í nýtingarflokki en farið að varfærnisrökum gagnvart afdrifum laxastofnsins og fyrirhuguð Urriðafossvirkjun verði sett í bið á meðan málið er  skoðað enn frekar.“


Bæjarfulltrúar D- og B-lista tóku undir efni ályktunarinnar en lögðu áherslu að „nýta beri alla virkjanakosti Þjórsár“.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert