Íbúar urðu varir við hvellinn

Lóðsinn kom með sprengjuna til hafnar í Njarðvík.
Lóðsinn kom með sprengjuna til hafnar í Njarðvík. Ljósmynd/Hilmar Bragi Bárðarson

„Þetta var heilmikið dúndur,“ sagði lögreglumaður í Reykjanesbæ um sprengju sem Landhelgisgæslan sprengdi í dag við Stapafell. Sprengjan kom í veiðarfæri togveiðiskipsins Sóleyjar Sigurjóns frá Garði. Nokkrir íbúar höfðu samband við lögreglu til að fá upplýsingar um hvað hefði verið í gangi enda varð mikill hvellur þegar sprengjan sprakk.

Eftir að Landhelgisgæslan fékk tilkynningu um málið var ákveðið að senda sprengjusérfræðinga um borð með þyrlu Landhelgisgæslunnar en þegar komið var að skipinu reyndist ekki mögulegt að síga um borð vegna mikillar ölduhæðar. Gátu þó sprengjusérfræðingar greint frá þyrlunni að um væri að ræða þýskt tundurdufl.  Var óskað eftir að togarinn héldi rakleiðis til Keflavíkur þar sem sprengjusérfræðingarnir kæmust um borð.  

Þegar skipið kom að landi var áhöfnin send frá borði og var tundurduflið flutt með lóðsbát frá Keflavík til Njarðvíkur og síðan í lögreglufylgd að afviknum stað við Stapafell þar sem sprengjusérfræðingar eyddu duflinu, sem talið var innihalda um 300 kíló af sprengjuefni.  

Í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni segir að skipverjar Sóleyjar Sigurjóns hafi sýnt hárrétt viðbrögð þegar þeir höfðu tafarlaust samband við Landhelgisgæsluna. Tundurdufl eru stórhættuleg og sprengiefni þeirra virkt þrátt fyrir áratugi neðansjávar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert