Uppbygging hér í forgangi

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir að þrátt fyrir að verið sé að skoða orkusögu úr landi í gegn um sæstreng sé áhersla fyrirtækisins á uppbyggingu atvinnu hér á landi. Hann segir ekki komið á hreint hver myndi bera kostnað af lagningu sæstrengs til Evrópu eða Bretlands vegna orkusölunnar þó hann telji líklegt að erlendir aðilar myndu fjármagna framkvæmdina. 

Hörður segir að næstu skref í ferlinu séu þríþætt: skoða þurfi tæknilegu hliðina, samfélagsleg áhrif og svo þarf að ná pólitísku samkomulagi um hrinda verkefninu af stað. Auk Breta og Skota hafa Hollendingar og Þjóðverjar sýnt áhuga á að kaupa íslenska orku. En einn helsti kosturinn sem Bretar sjá við orkukaupin héðan er öryggið sem felst í íslenskri orku. Hörður segir orkuna sem Landsvirkjun líti til komi meðal annars frá vindorku og jarðvarma auk þess sem hægt sé að selja umframorku úr íslenska kerfinu sem nýtist ekki. Þessir möguleikar séu of dýrir fyrir iðnaðinn en myndu henta kaupendum í Evrópu sem væru tilbúnir til að greiða uppsett verð fyrir orkuna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert