Þolinmæði Vinstri grænna þrotin

„Þolinmæði Vinstri grænna einkum á landsbyggðinni er gjörsamlega þrotin gagnvart ESB vegferð flokksforystunnar í ríkisstjórnarsamstarfi með Samfylkingunni.“ Þetta segir Jón Bjarnason, þingmaður VG, á heimasíðu sinni. 

Hann segir loforð um að ekki yrði sótt um aðild að ESB hafa vegið sterkt í góðu gengi  flokksins í síðustu kosningum. „Fyrir kjósendur VG voru það hrein svik að fallast á umsókn að ESB sem hluta af skilyrðum við ríkisstjórnarmyndun með Samfylkingunni. Samfylkingin var nýkomin helsærð úr ríkisstjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn í hrunstjórninni  og hafði enga stöðu til að setja slík skilyrði. Allmargir þingmenn VG greiddu atkvæði gegn þeirri ákvörðun á sínum tíma  og eftir því sem ákveðnir forystumenn ríkisstjórnarflokkanna sukku dýpra í aðildarferlinu að ESB varð ágreiningurinn innan VG meiri.“

Jón segir þann ágreining hafa leitt til þess að sterkir þingmenn flokksins sáu sig knúna til að yfirgefa hann vegna ESB og ofríkis sem þeir voru beittir af forystu flokksins. „Um síðustu áramót var ráðherrum hrókerað út úr ríksisstjórn af sömu ástæðum, við mikinn fögnuð ESB sinna og skálað var í Brussel. Nú sýnir ESB  áfram grímulaust klærnar gagnvart Íslandi, stuðningur við VG kominn niður fyrir 10%, vinsældir forystumanna sem áður náðu langt út fyrir raðir flokksins mælast nú í algjöru lágmarki. Er að furða þótt margir stofnendur og forystufólk í flokknum frá byrjun segi nú stopp. Nú er nóg komið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert