Ríkið á verulegan hlut í verðbólgunni

Bjarni Benediktsson
Bjarni Benediktsson mbl.is/Ómar

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði á Alþingi í dag að verðbólga yfir fimm prósent væri að festa sig í sessi. Ef fylgt verði þeirri peningastefnu sem verið hefur við lýði megi því búast við vaxtahækkun Seðlabanka Íslands. Hann sagði ríkisstjórnina eiga verulegan hlut að máli.

Meðal þess sem Bjarni benti á er að tveir liðir hafi hækkað mest í vísitölu neysluverðs, þ.e. eldsneyti og opinberar hækkanir. Fyrir utan olíuna hafi ekkert hækkað vísitöluna meira en opinberar hækkanir. Og ríkisstjórnin hafi einnig gert sitt til að hækka eldsneytisverð. Af því leiði að ríkisstjórnin eigi verulegan hlut í verðbólgunni sem er að myndast.

Steingrímur J. Sigfússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, sagði það mat Seðlabankans og Hagstofunnar að verðbólgan hafi náð hámarki og muni fara lækkandi á næstu mánuðum. Lengra sé í land en áður var talið þar til hún fari undir vikmörg Seðlabankans og muni það því ekki takast fyrir áramót. 

Þá benti hann á að gjaldhækkanirnar hafi gengið í gegn um áramót og hafi verið um að ræða verðlagsuppfærslur. Hins vegar hafi hækkanir hjá sveitarfélögum verið umfram verðlag. Það séu þó hækkanir sem gengnar séu í gegn. Verði ekki frekari hækkun á hrávöru og olíu og gengið haldi áfram að styrkjast mun það hjálpa mikið til.

Steingrímur sagði verðbólguna áhyggjuefni en margar skýringar séu á því að hún hafi hækkað. Kjarasamningar hafi sett þrýsting og heimsmarkaðsverð á olíu, veiking krónunnar og gjaldskrárhækkanir ríkis og sveitarfélaga. En nú sé allt að þróast með jákvæðum hætti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert