Samstaða vill taka upp Nýkrónu

Lilja Mósesdóttir.
Lilja Mósesdóttir. Morgunblaðið/Sigurgeir S.

Upptaka Nýkrónu er ekki töfrabragð heldur nauðsynleg varnaraðgerð til að koma í veg fyrir aukna fátækt og stórfelldan landflótta á næstu árum, segir Lilja Mósesdóttir, þingmaður og formaður Samtöðu. Hún telur að upptaka Nýkrónu myndi laga ytra ójafnvægi hagkerfisins án þess að lífskjör yrðu skert verulega.

Í pistli á vefsvæði sínu segir Lilja að þetta sé sú leið, þ.e. skiptigengisleið, sem Samstaða vilji að rædd verði og könnuð af yfirvegun. „Upptaka Nýkrónu með mismunandi skiptigengi mun ekki brjóta í bága við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar.[...] Froðueignum á leið út úr landi yrði hins vegar skipt yfir í Nýkrónu þannig að 10 milljónir í gömlum krónum yrðu t.d. 2 milljónir í Nýkrónum. Launum fólks í landinu yrði breytt í Nýkrónur þannig að upphæð þeirra yrði óbreytt.“

Lilja segir að jafnframt væri nauðsynlegt að nota upptöku Nýkrónunnar til að laga innra ójafnvægi hagkerfisins sem felist í því að sumir eigi alltof miklar eignir, t.d. fjármagnseigendur og lífeyrissjóðir, og aðrir séu of skuldsettir. „Við upptöku Nýkrónunnar þyrfti að skrifa húsnæðisskuldir þannig að 10 milljón kr. lán í núverandi krónum yrði 8 milljónir í Nýkrónu og lækka eignir fjármagnseigenda til samræmis.“

Þetta segir Lilja að yrði til þess að heimilum sem eiga í greiðsluvanda og skuldavanda myndi fækka um 15 þúsund.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert