Stjórnmálamenn verða að lesa stjórnarskrána

Róbert Spanó prófessor og forseti lagadeildar á málþinginnu í Lögbergi …
Róbert Spanó prófessor og forseti lagadeildar á málþinginnu í Lögbergi í dag. mbl.is/Golli

Ganga verður út frá því að dómur Landsdóms í máli Alþingis gegn Geir H. Haarde geti haft töluvert fordæmisgildi fyrir störf ríkisstjórnar landsins í framtíðinni, og sérstaklega störf forsætisráðherra. Þetta sagði Róbert Spanó, prófessor í lögum og forseti lagadeildar Háskóla Íslands, á málstofu Lagastofnunar og Orators um dóminn nú síðdegis.

Róbert hóf mál sitt á því að segja að dómur Landsdóms verðskuldi mjög mikla fræðilega umfjöllun. Hefur hann sjálfur í hyggju að rannsaka hann áfram og skrifa um hann þegar tími gefst til. Hann sagði að í málinu gegn Geir Haarde fyrir Landsdómi reyni á lagareglur sem séu mjög sérstaks eðlis og taki eingöngu til brota ráðherra sem leiði af stjórnskipulegri stöðu hans, og framin eru í skjóli valdsins.

Mikilvægt sé að hafa í huga, þegar dómurinn er lesinn, að um sé að ræða réttarhöld sem lutu öðrum lögmálum en vænta mátti í hefðbundnum sakamálum. Í gildandi kerfi um Landsdóm sé á ferðinni samkrull lögfræði og pólitíkur, sem sé fyrirbæri sem hafi verið mun meira viðurkennt á upphafi 20. aldarinnar en það er í dag. „Í nútímalögfræði reynum við eftir fremsta megni að skilja vel á milli lögfræði og pólitíkur,“ sagði Róbert.

Ekki ógilt með hefðum frekar en málskotsréttur forseta

Róbert sagði að niðurstaða dómsins væri m.a. staðfesting á því að venja mótist ekki á vettvangi handhafa ríkisvaldsins, í andstöðu við stjórnarskrána. Bar hann þetta saman við málskotsrétt forseta skv. 26. grein stjórnarskrár og sagði að þótt forsetar hafi í áratugi ekki beitt þeirri grein hafi sú venja ekki komið í veg fyrir að henni væri síðar beitt. Dómurinn staðfesti að sama eigi við um 17. grein sem Geir var dæmdur fyrir að brjóta. Þannig að þótt venja hafi myndast á ráðherrafundum myndi sú venja ekki réttaráhrif sem breyti fyrirmælum 17. greinar stjórnarskrárinnar.

Hvað varðar fordæmisgildi dómsins, sem er sá fyrsti sem kveðinn er upp í Landsdómi, setti Róbert þann fyrirvara að það væri háð því sem tíminn ætti eftir að leiða í ljós um forsendur meirihluta Landsdóms, dómaranna 9 sem komust að þeirri niðurstöðu að Geir Haarde væri sekur um að hafa látið farast fyrir að halda ráðherrafundi um mikilvæg stjórnarmálefni, sbr. 2. lið ákæru Alþingis.

Stjórnmálamenn geta ekki skýlt sér bak við venjur

Róbert sagði að mjög ríkt fordæmisgildi væri grein 8.c. í lögum um ráðherraábyrgð, sem orði refsiábyrgðina,. „Það einfaldlega þýðir að stjórnmálamenn, þeir verða að fara að lesa stjórnarskrána,“ sagði Róbert. Í  ljósi niðurstöðu Landsdóms verði stjórnmálamenn að átta sig á því að þegar kemur að sakamálum muni dómendur leggja út frá því hvað stendur í stjórnskránni. „Stjórnmálamenn geta ekki skýlt sér á bak við hefðir og venjur,“ sagði Róbert. „Þegar reynir á hina lagalegu ábyrgð eigum við að byrja á byrjuninni og lesa stjórnarskrána“.

Róbert hnykkti einnig á því sem hann hefur áður sagt, að hann telji þörf á því að breyta lögum um Landsdóm, sérstaklega því sem snýr að ákæruvaldi í höndum stjórnmálamanna. Sagðist hann vilja breyta 14. grein stjórnarskrárinnar, þar sem segir að Alþingi geti kært ráðherra, og leggja niður ákæruvald Alþingis.

Málþingið var vel sótt og á fyrsta bekk sátu m.a. …
Málþingið var vel sótt og á fyrsta bekk sátu m.a. þeir Sigurður Líndal lagaprófessor og Ólafur Þ. Harðarson prófessor í stjórnmálafræði. Mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert