Erfitt siðferðilegt álitamál

Fjöldi Íslendinga hefur fengið líffæri að gjöf
Fjöldi Íslendinga hefur fengið líffæri að gjöf

Sú ákvörðun að breyta úr „ætlaðri neitun“ við líffæragjafir í „ætlað samþykki“ er erfitt siðferðilegt álitamál og sterk siðferðileg rök styðja hvora leiðina sem farin er í þeim efnum. Þetta segir forstöðumaður Siðfræðistofnunar.

Um er að ræða umsögn við þingsályktunartillögu sem þingmenn úr öllum flokkum nema Hreyfingunni standa að, en flutningsmaður hennar er Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks.

Tillagan gengur út á að velferðarráðherra verði falið að láta semja frumvarp sem geri ráð fyrir „ætluðu samþykki“ við líffæragjafir í stað „ætlaðrar neitunar“, þannig að látinn einstaklingur verði sjálfkrafa líffæragjafi nema hinn látni hafi látið í ljós vilja til hins gagnstæða. Neiti aðstandendur líffæragjöf við lát einstaklings skuli þó taka tillit til þeirrar óskar.

Í umsögn Siðfræðistofnunar segir að ekki sé mælt með því að vikið verði frá þeirri reglu að óska eftir samþykki aðstandenda fyrir líffæragjöf ef því verður við komið. Þá er boðað málþing um efnið næsta haust.

Getur haft afleiðingar fyrir jaðarhópa

Fleiri umsagnaraðilar koma inn á siðferðisþáttinn því Mannréttindaskrifstofa Íslands segir að ýmsar spurningar vakni sem snúi að líffæragjafanum sjálfum. „Hugmyndin um ætlað samþykki byggist á þeirri forsendu að líffæragjafinn sé fullorðin manneskja sem sé til þess bær að taka ákvarðanir um eigið líf og limi og geti því hafið uppi andmæli gegn ætluðu samþykki til líffæragjafar sé þess óskað.“

Framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofunnar bendir hins vegar á að ætlað samþykki falli ekki jafn vel að einstaklingum sem eru sökum ástands síns ófærir um að andmæla líffæragjöf eða gera sér grein fyrir því hvað í henni felst. „Að mati MRSÍ verður að standa vörð um mannréttindi þessara einstaklinga við lagasetningu um ætlað samþykki og hafa í huga þær afleiðingar sem hún getur haft fyrir ýmsa jaðarhópa samfélagsins, s.s. börn og einstaklinga með þroskahömlun.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert