Reglugerðin ósamrýmanleg stjórnarskrá

Reglugerðin snertir starfsemi banka, sparisjóða, vátryggingafélaga, verðbréfasjóða, kauphallarinnar, lífeyrissjóða og …
Reglugerðin snertir starfsemi banka, sparisjóða, vátryggingafélaga, verðbréfasjóða, kauphallarinnar, lífeyrissjóða og fleiri.

Ef tekið væri upp sameiginlegt fjármálaeftirlit Evrópusambandsins hér á landi væri verið að framselja of mikið vald til stofnana í Evrópusambandinu. Að óbreyttu kallaði slíkt framsal á breytingu á stjórnarskrá Íslands.

Fjallað var um þetta í fréttum RÚV í kvöld. Innan Evrópusambandsins hafa verið samþykktar reglur um nýtt eftirlitskerfi með fjármálamörkuðum ESB-ríkjanna en því sinna þrjár samevrópskar stofnanir sem hafa víðtækar valdheimildir. Ákvarðanir þeirra má kæra til áfrýjunarnefndar og svo til Evrópudómstólsins.

Þessar reglugerðir falla undir EES-samninginn og aðildarríki EES sem ekki eru í Evrópusambandinu þurfa að taka hana upp í löggjöf sína. Við undirbúning málsins hér á landi hefur sú spurning vaknað hvort lögleiðing reglugerðarinnar samræmist stjórnarskrá Íslands. Stjórnarskráin heimilar ekki framsal valds til yfirþjóðlegra stofnana.

Til að svara því hvort í reglugerðinni fælist það mikið valdaframsal að það sé ósamrýmanlegt stjórnarskránni fékk utanríkisráðuneytið lagaprófessorana Björgu Thorarensen og Stefán Má Stefánsson til að skila áliti um málið.

Í frétt RÚV segir að í áliti þeirra sé komist að þeirri niðurstöðu að ef þessar reglur yrðu innleiddar hér á landi óbreyttar yrði gengið lengra í framsali framkvæmdavalds og dómsvalds en talið er að heimilt sé samkvæmt stjórnarskránni. Fram kemur að ESB hafi þegar hafnað málamiðlunartillögu Íslands og Noregs í málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert