Sakaði stjórnarandstöðuna um að taka Alþingi í gíslingu

Magnús Orri Schram, þingmaður Samfylkingarinnar, og Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra.
Magnús Orri Schram, þingmaður Samfylkingarinnar, og Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Magnús Orri Schram, þingmaður Samfylkingarinnar, sakaði stjórnarandstöðuna á Alþingi í dag um að ætla að taka þingið í gíslingu og koma í veg fyrir að mál væru afgreidd. Ljúka þyrfti málum í stað þess að stöðva þau bara til þess að stöðva. Heill almennings væri undir.

Magnús var þar að svara Ragnheiði Elínu Árnadóttur, þingflokksformanni Sjálfstæðisflokksins, sem sagði það óráð af hálfu stjórnarþingmanna að gera kröfu um að klára ákveðin mál eins og um fiskveiðistjórnunina og breytingar á stjórnarráðinu fyrir þinglok og að um það yrði ekki samið.

Sigurður Ingi Jóhannsson, þingmaður Framsóknarflokksins, brást við ræðu Magnúsar og sagði það galið af stjórnarmeirihlutanum að ætla að klára tugi mála fyrir þinglok. Setja ætti þess í stað í forgang mál sem vörðuðu til að mynda skuldavanda heimilanna.

Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, sagðist telja að Alþingi ætti að starfa eins lengi og þyrfti til þess að klára þau stóru mál sem lægju fyrir þinginu. Þá fram í júní eins lengi og hægt væri og aftur í haust ef á þyrfti að halda.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, kallaði eftir því að mál sem vörðuðu beint hagsmuni heimilanna yrðu tekin strax á dagskrá líkt og til að mynda um niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar á köldum svæðum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert