Andlát: Haukur Angantýsson

Haukur Angantýsson.
Haukur Angantýsson.

Haukur Angantýsson, alþjóðlegur meistari í skák, andaðist á lungnadeild Landspítalans í Fossvogi 4. maí síðastliðinn 63 ára að aldri.

Haukur fæddist á Flateyri við Önundarfjörð 2. desember 1948. Foreldrar hans voru Angantýr Guðmundsson skipstjóri, f. 1. júlí 1916, d. 21. maí 1964, og Arína Þórlaug Íbsensdóttir ritari, f. 11. september 1923, d. 14. október 1994.

Að loknu stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1968 fór Haukur til Þýskalands og lauk námi í efnafræði frá Georg August Universität í Göttingen 1973. Síðan tók hann skipstjórnarpróf frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík 1975.

Haukur vann ýmis störf um ævina, m.a. stundaði hann rannsóknarstörf á sviði efnafræði, kennslu, sjómennsku, bæði innanlands og erlendis, og við netagerð.

Skákin átti lengi hug Hauks og hann náði góðum árangri á þeim vettvangi. Hann varð efstur ásamt þremur öðrum skákmönnum á Íslandsmótinu 1975, en tók ekki þátt í aukakeppni. Árið eftir varð hann skákmeistari Íslands og á Íslandsmótinu 1978 varð hann efstur ásamt Helga Ólafssyni en tapaði úrslitaeinvíginu. Hann varð skákmeistari Reykjavíkur 1978 og náði góðum árangri á Rilton Cup í Stokkhólmi 1978/79. Árið 1979 fagnaði hann glæsilegasta sigri sínum, á World Open í Philadelphiu. Hann varð efstur með 8 vinninga af 10, ásamt sex stórmeisturum – Miles, Browne, Gheorghiu, Bisguier, Zuckerman og Fedorowicz. Haukur var efstur á stigum og var úrskurðaður sigurvegari á þessu fornfræga og merkilega móti. Hann var útnefndur alþjóðlegur meistari 1981.

Haukur, sem varð skákmeistari TR 1993, tefldi með Skákfélagi Vinjar síðustu árin og leiddi sveit félagsins á Íslandsmóti skákfélaga. Jafnframt tók hann þátt í fjölmörgum skákmótum á vegum Vinjar.

Systkini Hauks eru Íbsen, Bára, Auður, Ólafur Óskar og Guðrún. Uppeldissystirin Soffía Jóna Vatnsdal Jónsdóttir er látin.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert