Reyndi að drepa eiginkonu föður síns

Hæstiréttur
Hæstiréttur mbl.is / Hjörtur

Hæstiréttur hefur staðfest gæsluvarðhaldsúrskurð yfir karlmanni sem grunaður er um tilraun til manndráps 1. apríl síðastliðinn, en hann hefur játað sérlega hættulega árás. Í úrskurðinum segir að tilviljun hafi ráðið því að bani hlaust ekki af. Maðurinn verður í haldi til 30. maí næstkomandi.

Upphaf málsins má rekja til þess að kona leitaði á lögreglustöð laust eftir miðnætti aðfaranótt sunnudagsins 1. apríl. Hún sagði að sonur eiginmanns hennar hefði lagt á hana hendur og hún í framhaldi af því flúið íbúðina.

Konan skýrði frá því að maðurinn hefði ráðist á hana í kjölfar ásakana um að hafa stolið af honum 1.500 krónum. Hann hafi ráðist á hana þar sem hún hafi setið í sófa í stofunni og tekið hana kverkataki og kýlt hana í síðu, hendur og andlit. Þá hafi hann reynt að kæfa hana með því að halda kodda fyrir andliti hennar.

Fyrir þetta hafi maðurinn sagt við hana að hún yrði að fara úr lífi föður síns annars myndi hann drepa hana.

Lögreglan vísaði manninum úr húsinu.

Réðst aftur á konuna síðar um nóttina

Síðar sömu nótt, eða kl. 5.15 barst tilkynning um að kona væri fyrir framan hús og hrópaði eftir hjálp. Þegar lögregla kom á vettvang héldu þrír karlmenn umræddum árásarmanni en konan lá meðvitundarlaus í jörðinni um tveimur metrum frá. Lítið barn, sem reyndist vera 6 ára gamall sonur konunnar, horfði upp á árásina en nágranni fór með hann inn í íbúð sína og hlúði að honum. Óttaðist hann það mjög að móðir hans væri dáin. 

Lögregla fann á vettvangi stóran kertastjaka sem reyndist vera bareflið sem notað var við árásina.

Árásarmaðurinn var blóðugur á höndum og viðurkenndi fyrir lögreglu að hafa skorist þegar hann braust sér leið gegnum svalahurð á íbúð konunnar. Hann viðurkenndi jafnframt á vettvangi að hafa ætla að drepa konuna sem hefði eyðilagt líf hans og föður hans.

Maðurinn viðurkenndi árásina að nýju við skýrslutöku hjá lögreglunni.

Óttast að hann geri aðra tilraun

Í vottorði sérfræðilæknis kemur fram að konan hafi verið með þrjá djúpa skurði á höfði og þann fjórða á enni. Hún hafi verið marin á höfði og með mar á upphandleggjum.

Lögregla telur ljóst að ásetningur mannsins hafi verið að bana konunni. Um mjög alvarlega atlögu hafi verið að ræða, brot mannsins talið varða 16 ára fangelsi. Maðurinn er talinn hættulegur umhverfi sínu og óttast bæði faðir hans og konan að hann muni reyna að drepa konuna verði hann látinn laus.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert