Álfheiður: „Þetta voru mistök“

Álfheiður Ingadóttir, þingmaður VG.
Álfheiður Ingadóttir, þingmaður VG. Ljósmynd/Magnus Fröderberg/norden.org

Álfheiður Ingadóttir, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, kvaddi sér hljóðs í upphafi þingfundar á Alþingi í dag og baðst velvirðingar á að hafa í umræðum á Alþingi síðastliðinn mánudag lesið upp úr bréfi sem forsætisnefnd þingsins barst frá Björgu Evu Erlendsdóttur. „Þetta voru mistök,“ sagði Álfheiður.

Þar kvartaði Björg Eva undan ummælum sem Sigurður Ingi Jóhannsson, þingmaður Framsóknarflokksins, hafði látið falla um hana í ræðustól Alþingis en mikil umræða skapaðist í þinginu á mánudag um það með hvaða hætti þingmenn ættu að fjalla um fjarstadda einstaklinga úr ræðustól þingsins. Sagði Álfheiður að sér hefði hlaupið kapp í kinn í umræðunum en Álfheiður situr í forsætisnefnd Alþingis.

Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, fór í ræðustól og fagnaði afsökunarbeiðni Álfheiðar og rifjaði upp að hún sjálf hefði verið ávítt fyrir að hafa að ósekju brotið trúnað vegna upplýsinga af fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis. Hvatti hún til þess að settar yrðu skýrar reglur um það hvað mætti upplýsa og hvað ekki.

Álfheiður brást við ummælum Vigdísar með því að segja að það hefði verið smekklaust af sér að upplýsa um innihald bréfs Bjargar Evu en það hefði hins vegar ekki verið trúnaðarbrot. Bréfið hefði ekki verið bundið trúnaði heldur einungis verið stílað á forsætisnefnd.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert