Metanbílaeigendur í hremmingum

Metanstöðin við Ártúnshöfða í Reykjavík.
Metanstöðin við Ártúnshöfða í Reykjavík. Mbl.is/Ómar Óskarsson

Maður sem lét breyta bíl sínum í metanbíl segir að hann hefði tæplega gert það hefði hann vitað í hvaða hremmingum hann ætti eftir að lenda við að nálgast eldsneytið. Metan er aðeins afgreitt á tveimur stöðum á höfuðborgarsvæðinu, hjá N1 á Bíldshöfða og í Hafnarfirði. Forstjóri N1 segir að sú staðreynd að fjöldi fólks hafi valið sér orkugjafa sem takmarkað framboð er af sé ekki áhætta sem hvíli á herðum N1.

Gunnar Á. Bjarnason lét breyta bíl sínum um síðustu áramót og kostaði það 900.000 krónur. Hann segist ekki hafa verið upplýstur um hve metan væri af skornum skammti þegar hann lét gera þá breytingu. Gunnar sendi bréf til N1 með afriti til fjölmiðla þar sem hann kvartar undan takmörkuðu framboði á metani og segir aðra metanbílaeigendur sem hann hafi rætt við á dælunni hafa sömu sögu að segja. 

Margir þurfa frá að hverfa

Gunnar segir að iðulega séu langar biðraðir við metan-dælurnar á stöð N1 í Ártúnsbrekku. Ekki nóg með að dælur séu fáar heldur sé þrýstingurinn í kerfinu svo lélegur að bílar fái oft ekki nema hálfa fyllingu og afgreiðslutíminn sé mjög langur. Þetta komi sérstaklega illa við eigendur nýrra tvinnbíla sem hafi mun minni tanka en breyttir bílar. Að sögn Gunnars er ástandið sérstaklega slæmt á föstudögum og öðrum annatímum, þegar margir þurfi að hverfa á braut án fyllingar. 

„Það er mikil synd að svona ræfilslega sé staðið að þjóðþrifamáli eins og metanvæðingu. Og einkennilegt er að hugsa til þess að hið opinbera sé að byggja upp kúnnabasa hjá ykkur með því að niðurgreiða opinber gjöld af metanbílum og breytingum þegar ekki er til staðar afgreiðslugeta á eldsneytinu,“ segir Gunnar í bréfi sínu.

Eftirspurn umfram framleiðslu

Afgreiðslustöð N1 í Ártúnsbrekku var opnuð árið 2008 og kostaði þá yfir 100 milljónir króna í byggingu. „Við höfum einir viljað fjárfesta í búnaði til að selja þetta  gas, aðrir hafa ekki séð í því viðskiptatækifæri vegna kostnaðar og takmarkaðs framboðs,“ segir Hermann Guðmundsson, forstjóri N1, í svari við gagnrýni Gunnars.

Ráðist var í fjárfestinguna á Bíldshöfða vegna áætlana um stóraukið magn í sölu á metangasi. Síðan þá hefur aukningin að sögn Hermanns orðið margfalt meiri en Metan ehf, Sorpa og N1 spáðu um í sínum módelum. „[Nú] er svo komið að núverandi framleiðsla á metangasi mun tæpast anna eftirspurn að 12 mánuðum liðnum haldi þessi þróun áfram,“ segir Hermann.

N1 hefur á undanförnum mánuðum fjárfest í hylkjum og öflugri dælu fyrir 50 milljónir til að auka birgðarými og afköst. Einnig liggur fyrir beiðni frá N1 hjá Reykjavíkurborg um að gefa leyfi fyrir nýrri dælu. Hermann bendir hinsvegar á að takmörk séu fyrir getu þess metankerfis sem nú er rekið.

Dreifing metans dýr 

Í lok mars var á Alþingi lögð fram þingsályktunartillaga um niðurfellingu gjalda á vistvænt eldsneyti sem framleitt er innanlands. Þar kemur fram að dreifing metans sé dýr og eigi það bæði við um flutning frá framleiðslustað á sölustað og dælubúnað. „Dreifing með gasleiðslum virðist þó vera hagkvæmasti kosturinn en fjárfesting í upphafi er mikil,“ segir í tillögunni, sem Magnús Orri Schram þingmaður Samfylkingar mælti fyrir.

Í tillögunni segir að mikilvægt sé að styðja við uppbyggingu á dreifikerfi fyrir metan, en að taka verði tillit til takmarkana sem eru á framleiðslu metans. Í dag er metan fyrst og fremst framleitt úr sorphaugunum á Álfsnesi í samstarfi Sorpu og N1 undir nafni Metan hf. Á heimasíðu Metan hf kemur fram að framleiðslugeta á Álfsnesi verði að líkindum fullnýtt í árslok 2012.

Sorp baggað og breytt í metangas
Sorp baggað og breytt í metangas Mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert