Vaxtabætur gætu lækkað mikið

Vaxtabætur til fólks sem er með meðaltekjur og býr í eigið húsnæði myndu lækka verulega ef nýtt húsnæðisbótakerfi yrði tekið upp. Í skýrslu vinnuhóps sem vann að tillögunum er tekið dæmi um fjölskyldu þar sem vaxtabætur myndu fara úr 330 þúsund á ári niður í núll.

Vaxtabætur eru greiddar til fólks sem skuldar í eigið húsnæði og fer upphæð bótanna eftir því hversu mikið fólk greiðir í vexti af húsnæðislánum og hversu mikið það á í húsnæðinu. Þeir sem skulda ekkert eða lítið fá engar vaxtabætur.

Nýja kerfið gerir ráð fyrir að teknar verði upp húsnæðisbætur í stað vaxtabóta og húsnæðisleigubóta. Nýja kerfið myndi bæta verulega stöðu leigjenda. Staða þeirra sem eiga húsnæði og skulda verulega fjármuni í því myndi hins vegar versna.

Gert er ráð fyrir að húsnæðisbætur verði óskertar til þeirra sem eru með 203 þúsund krónur í laun á mánuði, en bætur til þeirra sem eru með hærri laun skerðist á bilinu 5-7%.

Í skýrslu starfshópsins er tekið dæmi af fjölskyldu sem býr í fjölbýlishúsi í Reykjavík að verðmæti 30 milljónir króna. Ráðstöfunartekjur hennar eru um 586 þúsund kr. á mánuði. Hún skuldar tæplega 24 milljónir í íbúðinni. Lánið er til 25 ára og fyrsta afborgun er 135 þúsund. Samkvæmt núverandi vaxtabótakerfi fengi fjölskyldan rúmlega 330 þúsund í vaxtabætur á ári. Hún fengi hins vegar ekkert út úr nýja kerfinu ef miðað væri við 7% tekjuskerðingarhlutfall, en 72 þúsund ef miðað er við 6% skerðingarhlutfall og 148 þúsund ef miðað er við 5% skerðingarhlutfall.

Í skýrslunni er tekið dæmi af fjölskyldu sem býr í 313 fermetra einbýlishúsi. Hún skuldar 32,5 milljónir í húsinu. Ráðstöfunartekjur fjölskyldunnar eru 490 þúsund krónur á mánuði. Þessi fjölskylda fær 557 þúsund krónur á ári út úr núverandi vaxtabótakerfi. Í nýja kerfinu fengi hún 189-301 þúsund eftir því við hvaða skerðingarhlutfall er miðað við.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert