Verður þingað fram í júlí?

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert

Meirihluti Alþingis samþykkti í dag að fundað yrði á Alþingi fram eftir kvöldi. Stjórnarandstæðingar mótmæltu þessu. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir orðróm vera um að stjórnin ætli að láta þingið standa fram í júlí.

„Hafi þingið einhvern tíman verið undir hælnum á einhverri ríkisstjórn þá er það þessi ríkisstjórn sem kemur fram með öll mál allt of seint of fer fram á næturfund eftir næturfund og hótar svo sumarþingi fram í miðjan júlí, eftir forsetakosningar, til þess að fá sín mál í gegn.

Ég segi það fullum fetum að við munum einfaldlega ekki sætta okkur við þá óvissu og það verklag sem hér er boðið upp á, ekki eina mínútu lengur,“ sagði Bjarni.

„Það er alveg klárt að stjórnarandstaðan mun ekki láta valta yfir sig með einhverjum hótunum um sumarþing,“ sagði Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins. Hann sagði að ekki stæði á stjórnarandstöðunni að ræða málin fram eftir sumri. „Að sjálfsögðu þurfum við að bregðast við því. Verðum við ekki að knýja fólk til að koma og semja við okkur?“

Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingflokksformaður sjálfstæðismanna, segir að ekkert samráð hafi verið haft við sig um að boða kvöldfund.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert