Hera, Eyfi og Helga spá í Evróvisjónspilin

Hera Björk - Evróvisjónfari ´10
Hera Björk - Evróvisjónfari ´10 BOB STRONG

Það hefur eflaust ekki farið fram hjá mörgum að Ísland keppir í aðalkeppni Evróvisjón 2012 í Bakú í Aserbadjan í kvöld. Mbl.is hafði samband við nokkrar valinkunnar Evróvisjónhetjur og kannaði hvernig þeim litist á.

Ráðlegg þeim að beina athyglinni til okkar sem að sitjum heima í stofu

Hera Björk fór sem fulltrúi Íslands í Evróvisjón árið 2010 með lagið „Je ne sais quoi“.

Hvernig líst þér á: Ég er bara mjög spennt, hef mjög góða tilfinningu fyrir þessu eins og alltaf.
Hvaða sæti spáirðu Grétu og Jónsa: 4. eða 14. sæti.
Hverjir sigra: Ég spái Svíþjóð sigri. Rússland, Serbía, Spánn og vonandi Ísland koma síðan öll þar á eftir. Það er mikið af góðum lögum þarna núna þegar Bretar, Þjóðverjar og Frakkar eru allir komnir inn en þetta eru allt sterkir flytjendur og mjög fín lög.
Einhver góð ráð til Grétu og Jónsa: Ég vona að þau nýti myndavélina svolítið vel, horfi heim til okkar sem erum heima í stofu. Þau eru með salinn, þannig að ég myndi segja að þau ættu að beina athyglinni sérstaklega að fólkinu heima í stofu.


Númer eitt að hafa gaman af þessu, er annars létt að Jónsi heitir ekki Hansi 

Eyfi, Eyjólfur Kristjánsson, fór sem fulltrúi Íslands í Evróvisjón árið 1991 með lagið „Draumur um Nínu“.

Hvernig líst þér á: Ég hef ekki mikið fylgst með þessu en horfði á íslenska atriðið á þriðjudaginn. Ég var ánægður með þau.
Hvaða sæti spáirðu Grétu og Jónsa: Mér líst mjög vel á þetta og ætla að spá þeim 6. sætinu í kvöld.
Hverjir sigra: Ég hef bara ekki heyrt önnur lög satt best að segja. Það tala allir um að sænska lagið vinni. En ég sest í sófann í kvöld og horfi á Jónsa og Grétu.
Einhver góð ráð til Grétu og Jónsa: Ekki annað en það bara að hafa gaman af þessu. Það var það sem að ég gerði á sínum tíma, hafði bara ómælt gaman af þessu. Ef þau gera það verður þetta flott hjá þeim, síðan eru þau líka atvinnumenn svo ég hef ekki nokkrar áhyggjur. Gangi þeim bara ótrúlega vel og muna að númer eitt er að hafa gaman af þessu. Annars er ég bara mjög feginn að Jónsi heitir ekki Hansi en það hefði ekki verið alveg nógu gott - ef þetta hefðu verið Hansi og Gréta.

Eru svo pottþétt að þarf ekki að gefa þeim nein ráð - bara njóta stundarinnar

Helga Möller fór sem fulltrúi Íslands með Icy-hópnum í Evróvisjón árið 1986  með lagið „Gleðibankinn“.


Hvernig líst þér á: Mér finnst þau alveg stórglæsileg og verðugir flytjendur. Þau eru ofsalega pottþétt í því sem þau eru að gera og það er greinilega mikið búið að pæla í atriðinu. Mér finnst búningarnir líka alveg frábærir, Gréta er stórglæsileg í þessum kjól. Þeim líður greinilega vel og geta slakað á á sviðinu.
Hvaða sæti spáirðu Grétu og Jónsa: Við lendum pottþétt í einu af 10 efstu sætunum en hvar þar fyrir innan er erfitt að segja.
Hverjir sigra: Eins og margir Íslendingar er ég afskaplega hrifin af þessari sænsku - hún er frábær listamaður og skilar þessu atriði sínu einstaklega vel.
Einhver góð ráð til Grétu og Jónsa: Mér finnst þau raunar svo pottþétt að ég þarf ekki að gefa þeim nein ráð. Það er annars bara það að njóta stundarinnar og vera ekki með neinar væntingar. Ég þekki Grétu frá blautu barnsbeini, hún og dóttir mín voru saman í tónlistarnámi, og ég veit að hún er jarðbundin, öguð og fagleg. Það er bara þetta nr. 1, 2 og 3 - að vera ekki með neinar væntingar og njóta augnabliksins. Þau mega líka vera stolt af því að hafa verið valin fyrir Íslands hönd í svona frábæra keppni.

Eyfi - Evróvisjónfari ´91
Eyfi - Evróvisjónfari ´91 Friðrik Tryggvason
Helga Möller - Evróvisjónfari ´86
Helga Möller - Evróvisjónfari ´86 Sigurgeir Sigurðsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert