Voru frelsinu fegnar

Það var fjölmenni sem fylgdist með því þegar kúnum á Helluvaði á Rangárvöllum var sleppt út í gær á hátíðinni „Halló Helluvað“ sem hefur verið haldin árlega á bænum um nokkurt skeið. Þá bjóða bændurnir á bænum, Ari Árnason og Anna María Kristjánsdóttir, gestum heim.

„Bara rosalega vel, var bara æðislegt,“ sagði Anna María aðspurð um hvernig til hefði tekist.

Á hátíðinni urðu gestir vitni að því þegar kýrnar fengu að fara út í sumarið í fyrsta skipti eftir inniveruna í vetur, en kýr taka þeim degi yfirleitt fagnandi með tilheyrandi klaufasparki. Í gær létu kýrnar ekki sitt eftir liggja í fögnuðum, eins og meðfylgjandi myndir bera með sér.

Einnig bauðst fólki að kíkja í fjárhúsin og skoða lömb og nýbornar ær, en sauðburður stendur ennþá yfir á bænum.

Á Helluvaði stunda þau Ari og Anna María mjólkurframleiðslu, eru með sauðfjárrækt og nokkrar íslenskar hænur.

„Fyrst var þetta bara fjölskyldan. Svo bættust við vinir og svo fórum við að auglýsa þetta árið 2008,“ sagði Anna María spurð að því hversu lengi þau hafi haldið hátíðina með þessum hætti. Vinsældirnar hafa aukist ár frá ári og nú komu um 400 gestir á „Halló Helluvað“ frá öllu SV-horninu.

Ari og Anna María eru annáluð fyrir gestrisni og enginn var svikinn í þeim efnum í gær. Boðið var upp á ábrystir (broddmjólk), kleinur, kókómjólk frá MS, kaffi og skúffuköku og gerðu gestir veitingunum góð skil.

 „Ábrystirnir voru rosalega vinsælir, ég fór með 16 lítra svo gaf ég helling,“ sagði Anna María og bætti við: „Fjölskyldan hjálpar til við að útbúa og gera klárt fyrir þennan dag, maður gerir þetta ekki allt einn.“

Á meðfylgjandi myndum má sjá stemninguna í gær.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert