Sorp í miðju úthverfi

Einar Ingi Hjálmtýsson, ósáttur íbúi hverfisins, við haug sem bæði …
Einar Ingi Hjálmtýsson, ósáttur íbúi hverfisins, við haug sem bæði er sjónmengun og slysagildra. Rax / Ragnar Axelsson

Ruslahaugur hefur myndast í miðju Norðlingaholtinu íbúum til mikillar óánægju. Svo virðist sem óprúttnir aðilar hafi losað heilu bílfarmana af úrgangi á fjölförnum stað í hverfinu og sjónmengunin því mikil.

Algengt er að börnin í hverfinu líti á sorphauginn sem leikvöll og slysahættan af naglaspýtum og brotajárni því nokkur. Svo virðist sem um sé að ræða úrgang eftir byggingarverktaka sem hafa ekki séð sóma sinn í að fjarlægja óþurftarefni að verkefni loknu. Haugurinn hefur því verið á sínum stað í þó nokkurn tíma og við hann hefur bæst almennt sorp á borð við þvottavélar og bensínbrúsa.

Dæmi eru um slíka hauga á fleiri stöðum á höfuðborgarsvæðinu og má þar nefna einn slíkan sem myndaðist í Hafnarfirði ekki alls fyrir löngu.

Hrólfur Jónsson, sviðsstjóri framkvæmda- og eignasviðs Reykjavíkurborgar, heldur því þó fram að ekki sé algengt að slíkir haugar myndist í úthverfum. Aðspurður út í haugana í Norðlingaholti og Hafnarfirði segir hann að vissulega séu undantekningar á öllu. Það hafi m.a. þurft að loka nokkrum vegum sem lágu að vinsælum en ólöglegum sorphaugum.

Borgin bregðast skjótt við

Hann segir jafnframt að eitthvað hafi verið um það í hruninu að verktakar færu á hausinn og skildu eftir byggingarefni. Þó er ávallt hægt að finna ábyrgðarmenn í slíkum tilfellum og þá er það á ábyrgð þeirra sem tóku yfir lóðina. „Ef úrgangurinn er á borgarlóð ber borgin ábyrgð á því að fjarlægja hann en ef hann er á einkalóð ber að hafa samband við byggingarfulltrúa skipulags- og byggingarsviðs Reykjavíkurborgar. Ef um borgarlóð er að ræða er auðveldast að tilkynna þessa hluti inni á ábendingarvefnum Borgarlandinu. Hægt er að átta sig á því hvort um borgarlóð sé að ræða inni á borgarvefsjá, þetta er allt á netinu í rauninni.“

Þess má geta að nálgast má vefina tvo á heimasíðu Reykjavíkurborgar. „Ef þú hefur ekki net geturðu alltaf hringt í þjónustuver borgarinnar og þau finna út úr þessu öllu fyrir þig,“ segir hann. Að sögn Hrólfs á ekki að líða langur tími á milli þess sem tilkynnt er um illa hirt svæði á borgarlóð og þar til aðhafst er í málinu. „Auðvitað getur vel verið að það gerist en það á ekki að gerast, það er ekki meiningin. Ef þú tilkynnir eitthvað þá á að bregðast við því.“

Lítið breyst

Fyrir um ári greindi Morgunblaðið frá sorpi í hrauninu sunnan Hafnafjarðar og stóð þá Reynir Ingibjartsson fyrir tiltekt. Aðspurður segir hann ástandið í dag slæmt og að enn sé verið að henda sorpi í hraunið. „Þetta er nánast verkefnið endalausa. Þarna eru stærðar gjótur og glufur fullar af drasli þannig að það er gríðarlegt verkefni að hreinsa þetta svæði.“ Reynir segir að svipað átak verði næsta haust og hvetur fólk til að taka þátt í því.

Einar Ingi Hjálmtýsson.
Einar Ingi Hjálmtýsson. Rax / Ragnar Axelsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert