Fá 438 þúsund í vexti, en 5% sitja eftir

Hjón sem fá 438 þúsund í vexti af eignum sínum á ári sitja eftir með 21.317 krónur á ári þegar búið er að taka tillit til skatta og tekjuskerðinga Tryggingastofnunar ríkisins.

Þetta kemur fram í frétt frá Tryggingastofnun, en í henni er reynt að svara þeirri spurningu hvort sé hagstæðara fyrir aldraða að geyma sparifé sitt í banka og fá af þeim vexti eða í bankahólfi.

Niðurstaða stofnunarinnar er að það borgi sig fyrir lífeyrisþega sem eiga lausafé að geyma það í banka. Þó hlutfall af fjármagnstekjum fari í skatta og frádrátt hjá Tryggingastofnun njóti lífeyrisþegar þeirra að einhverju marki þegar upp er staðið.

TR tekur nokkur dæmi máli sínu til stuðnings. Maður sem hefur eingöngu tekjur frá Tryggingastofnun en á eina milljón á bankareikningi getur vænst þess að fá 36.500 krónur í vexti á ári. Þegar búið er að greiða skatta og taka tillit til skerðinga standa eftir um 6.326 kr. á ári.

Tekið er annað dæmi af hjónum sem bæði eru ellilífeyrisþegar. Konan er einungis með tekjur frá Tryggingastofnun en karlmaðurinn er með 1.200.000 frá lífeyrissjóði á ári. Þau fá arf sem er tólf milljónir kr. eftir að erfðaskattur hefur verið greiddur. Með því að kaupa ríkisskuldabréf fyrir arfinn geta þau vænst þess að fá 438 þúsund í fjármagnstekjur á ári.

Ráðstöfunartekjur hjónanna hækka samanlagt um 21.317 kr. á ári eftir skatta ef þau kaupa ríkistryggð skuldabréf og ávöxtun gengur samkvæmt áætlun. Ef peningarnir eru geymdir í bankahólfi eru samanlagðar árstekjur þeirra eftir skatt 3.955.864 kr. en með því að fjárfesta í ríkistryggðum skuldabréfum verða þær 3.977.181 kr.

Frétt Tryggingastofnunar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert