Fjögur og hálft ár fyrir umboðssvik

Ragnar Zophonías Guðjónsson, fyrrverandi forstjóri Byrs sparisjóðs.
Ragnar Zophonías Guðjónsson, fyrrverandi forstjóri Byrs sparisjóðs. Kristinn Ingvarsson

Hæstiréttur dæmdi í dag Jón Þorstein Jónsson og Ragnar Z. Guðjónsson í fjögurra og hálfs árs fangelsi fyrir umboðssvik í svokölluðu Exeter-máli. Mennirnir voru sýknaðir í héraðsdómi.

Styrmir Þór Bragason var einnig ákærður í málinu fyrir hlutdeild í brotunum, en dómurinn yfir honum var ómerktur og sendur aftur til héraðsdóms.

Ragnar er fyrrverandi sparisjóðsstjóri Byrs og Jón Þorsteinn er fyrrverandi stjórnarformaður sparisjóðsins. Þeir voru ákærðir fyrir umboðssvik í tengslum við lánveitingu Byrs til einkahlutafélagsins Exeter-Holding. Lánið var veitt til kaupa á stofnfjárbréfum í eigu Jóns Þorsteins og nokkurra starfsmanna sparisjóðsins og  félags sem að hluta var í eigu Ragnars.

Í dómnum segir að fallist verði á það með ákæruvaldinu að með aðgerðum sínum hafi ákærðu Jón og Ragnar komið málum þannig fyrir að áhættu á tjóni vegna stofnfjárbréfanna var velt yfir á Byr sparisjóð. Þetta gerðu ákærðu án þess að kanna sérstaklega stöðu Exeter Holdings ehf. og án nægilegs stuðnings við gögn um raunverulegt verðgildi stofnfjárbréfanna. Þá voru ekki veittar frekari tryggingar fyrir láninu en veð í stofnfjárbréfunum sjálfum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert