Formaður Landsbjargar: „Oft hafa aðstæður staðið mjög tæpt“

„hér er ríkir umhugsunarvert ástand sem helgast af því að …
„hér er ríkir umhugsunarvert ástand sem helgast af því að stanslaust hefur verið skorið niður hjá opinberum viðbragðsaðilum, " segir Hörður Már Harðarson, formaður Landsbjargar Mbl.is/Jónas Erlendsson

Mikið annríki hefur verið í útköllum í sumarbyrjun hjá björgunarsveitunum, en talsvert er um að erlendir ferðamenn lendi í hremmingum, ýmist týnist eða lendi í sjálfheldu. Í því samhengi má nefna að fjögur útköll bárust björgunarsveitum á síðastliðnum sólarhring.

Hörður Már Harðarson, formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar, segir að auknum fjölda ferðamanna til landsins fylgi óhjákvæmilega vaxandi þörf fyrir björgunarsveitirnar og bendir á að umhugsunarverð staða sé komin upp í björgunarmálum hér á landi.

„Síðustu daga hefur glöggt komið í ljós hve mikil þörfin getur verið. Ákveðnum hálendisvegum hefur verið lokað og fólk hefur farið inn fyrir þessa vegi og lent í gríðarlegum vandræðum og síðan hafa sjálfboðaliðar farið og sótt þetta fólk. Oft hafa aðstæður staðið mjög tæpt,“ segir Hörður.

Samkvæmt Herði geti fjárskortur skert öryggi verulega. „Greinilega skortir fé til að loka þessum vegum almennilega og úthaldsþrek sveitanna minnkar ef menn eru stanslaust í verkefnum, en í öllum tilfellum þegar björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar  bregðast við er um sjálfboðaliða að ræða. Á vissan hátt er búið að færa öryggi hér á landi í hendur sjálfboðaliða sem áður var í höndum atvinnumanna og það er vissulega áhyggjuefni,“ segir Hörður.

Mætir einungis lágmarksútgjöldum

„Sumarið 2006 fórum við af stað með ákveðið verkefni sem heitir Hálendisgæslan. Með því mönnum við fjóra staði á hálendi Íslands á mesta annatímanum til þess að mæta aukinni þörf, en hálendið á síauknum vinsældum að fagna meðal ferðamanna og því hefur umgangur um svæðið aukist mjög á síðustu árum. Mikilvægi þessa verkefnis hefur aukist ár frá ári og sérstaklega eftir hrun þar sem opinberir löggæsluaðilar hafa ekki haft tækifæri til að sinna þessu verkefni vegna fjárskorts,“ segir Hörður.

Þess í stað er Hálendisvakt björgunarsveitanna fjármögnuð með fé frá styrktaraðilum, „en það er einungis til að mæta lágmarksútgjöldum. Þetta er að stærstum hluta greitt úr vasa sveitanna sjálfra sem slysavarnaverkefni. Við leggjum áherslu á að björgunarlið sé til staðar þegar mestar líkur er á að fólk lendi í vanda uppi á hálendi, því annars getur verið langt að sækja aðstoð,“segir Hörður.

Að hans sögn hefur þörfin aukist gríðarlega á síðustu árum. „Með auknum komum ferðamanna til landsins hefur verkefni undið upp á sig, þá sérstaklega eftir gosin sem hér hafa átt sér stað á síðustu árum. Þá jókst álagið á Hálendisgæsluna á suðurhluta landsins til muna.“

Umhugsunarvert ástand

Aðspurður hvort stefni í vandræði segir Hörður þess ekki langt að bíða. „Hér er komið upp umhugsunarverð staða sem helgast af því að stanslaust hefur verið skorið niður hjá opinberum viðbragðsaðilum og þeirri löggæslu sem við teljum okkur vera að bakka uppi. Við erum aftur á móti sjálfboðaliðar sem bregðumst við þegar hefðbundið viðbragð getur ekki brugðist við.“

Hann segir mikið álag á sérþjálfuðum björgunarsveitamönnum, „við hljótum að vilja að fagaðilar takist á við þessi verkefni og við viljum tryggja að fólk fái bestu mögulegu þjónustu, stytta sjúkrahúsdvöl og þar fram eftir götunum.“ Að sögn Harðar er líklegt að töluvert annríki verði hjá björgunarsveitunum í sumar.

„Við rekum vefinn safetravel.is þar sem upplýsingum um aðstæður og lokaða vegi er komið á framfæri til ferðamanna. Vegagerðin ásamt  aðilum í ferðaþjónustunni reynir  að koma upplýsingum um lokaða vegi á framfæri við ferðamenn, en einhverra hluta vegna virðast þessar upplýsingar aðeins ná til takmarkaðs hóps,“ segir Hörður og bætir við að finna verði leiðir til að auka upplýsingaflæði til að koma í veg fyrir slys.

Björgunarsveitarmenn frá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu.
Björgunarsveitarmenn frá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert