300 manns gæddu sér á kartöflusúpu

Árleg Kartöfluhátíð í Þykkvabæ fór fram á föstudagskvöld þegar um 300 gestir heimsóttu samkomuhúsið og gæddu sér á kartöflusúpu.

Þá fór einnig fram árleg Listaveisla í Þykkvabæ og að þessu sinni var sýning á verkum þeirra Gunnhildar Þórunnar Jónsdóttur frá Berjanesi í V-Landeyjum og Sigrúnar Jónsdóttur frá Lambey í Fljótshlíð.

Sigrún hefur um árabil málað og haldið tvær einkasýningar og tekið þátt í nokkrum samsýningum. Á sýningunni eru akrýlverk og vatnslitaverk eftir hana.

Gunnhildur Þórunn hefur sömuleiðis frá unga aldri málað og teiknað. Hún málar meðal annars hestamyndir og sauðfé ásamt ýmsu öðru.

Að sögn Brynju Rúnarsdóttur, eins aðstandenda hátíðarinnar, tókst dagurinn mjög vel, en um kvöldið fór fram kvöldvaka þar sem Gestur Ágústsson í Suður-Nýjabæ og Berglind Gylfadóttir í Húnakoti skemmtu meðal annars gestum með söng og Glódís Margrét Guðmundsdóttir spilaði undir á píanó. Sóknarpresturinn, sr. Guðbjörg Arnardóttir í Odda, stýrði skemmtuninni af miklum myndarskap eins og henni er lagið og fór með gamanmál fyrir gesti inn á milli atriða.

Í dag var svo opið á listasýningunni og mættu fjölmargir gestir til að skoða listaverkin en þau verða einnig til sýnis næsta sunnudag. Seldar eru vöfflur og kakó á staðnum, en sýningin er í húsnæði barnaskólans í Þykkvabæ.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert