Ekki þurft að kaupa í soðið í 2 ár

Makrílveiði fyrir norðan hefur verið óvenju gjöful síðustu daga. Stangveiðimenn hafa fiskað af Torfunefsbryggju og er ekkert lát á makrílveiðinni þar um slóðir.

Hjónin Sigurlaug Leifsdóttir og Guðmundur Örn Ólafsson eru miklir sjóstangaveiðimenn og hafa veitt mikið magn af makríl í dag og í gær. „Í gærkvöldi veiddum við rúma 70 makríla á rúmum klukkutíma,“ segir Sigurlaug. „Í morgun veiddum við svo 53 makríla á einni og hálfri klukkustund,“ bætir hún við en þau hjónin veiða af bryggjunni og við Hauganes.

„Það er eins gott að nýta makrílinn meðan hann gefur, því tegundin kemur og fer framhjá á mjög skömmum tíma,“ segir Sigurlaug en að hennar sögn er fjölskyldan komin með nóga beitu fyrir veiðitímabilið.

Hún segir þau hjónin gera töluvert af því að veiða. „Við höfum í það minnsta ekki þurft að kaupa okkur í soðið í tvö ár,“ segir Sigurlaug og því ljóst að mikið er upp úr einstaklingsstrandveiðum að hafa. 

Stekkur á stöngina

Makrílinn nota þau hjón í beitu, en þau leggja sér hann ekki til munns. „Við notum hann til að veiða þorsk, ýsu og steinbít. Sumir elda þó makrílinn en við höfum ekki gert það hingað til,“ segir Sigurlaug.

Makríllinn virðist hreinlega stökkva á stangirnar því Guðmundur dró sjö fiska á land í einu kasti. Það hlýtur að teljast hámarksafli á eina stöng, „við erum með sérstaka makrílslóða með sex önglum auk þess sem hann er með þríkrækju. Fiskurinn gengur auk þess í hringi í torfum og kasti maður í torfuna gengur á eins og skot,“ segir Sigurlaug.

Hún og maður hennar hita með þessu upp fyrir Íslandsmót í strandveiðum sem fram fer í Eyjafirði um næstu helgi, en mótið er úrtökumót fyrir Evrópumótið sem haldið verður í Eyjafirði í septmber. „Þá koma hingað 70-100 manns víðsvegar úr Evrópu til að keppa í strandveiði,“ segir Sigurlaug.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert