Lifnar yfir fólki í góðu veðri

Törnin byrjar fyrr þegar veðrið er gott og sólin skín.
Törnin byrjar fyrr þegar veðrið er gott og sólin skín. mbl.is/Styrmir Kári

Gott veður á stóran þátt í aðsókn gesta á veitingastaði borgarinnar, en veðurguðirnir hafa verið einstaklega góðir við Íslendinga í sumar. Elstu menn landsins þurfa að fara langt aftur í tímann til að muna annað eins góðviðri, en sólin hefur skinið flestalla daga og lítið hefur verið um rigningu.

Andri Björnsson er eigandi Vegamóta í miðbæ Reykjavíkur, en hann er mjög ánægður með gang mála þessa dagana. „Þetta er náttúrlega búið að vera æðislegt sumar. Á meðan við erum með aðstöðu fyrir útiborð er þetta allt annað. Þegar við fáum gott veður og sólin skín lifnar yfir fólki og það kíkir út,“ segir Andri, en þéttsetið var á útisvæði Vegamóta þegar blaðamaður kom við á staðnum.

Aukinn fjöldi ferðamanna

Mikill fjöldi ferðamanna hefur lagt leið sína á Vegamót í sumar, en þeim hefur farið fjölgandi jafnt og þétt á Íslandi undanfarin ár.

„Ég hef aldrei séð jafnmikið af útlendingum hjá mér. Við erum reyndar aðeins til hliðar við Laugaveginn en bærinn iðar allur af ferðamönnum og við fáum mikið af þeim til okkar,“ segir Andri.

Að sögn Andra er töluverður munur á aðsókn sumar og vetur en hann verður var við aukna aðsókn strax í byrjun maí. „Um leið og það fer að vora og sólin er aðeins farin að láta sjá sig fer allt af stað. Stundum þarf ekki nema 5-10 gráða hita. Það er sólin sem fólk leitar eftir,“ segir Andri, en hann segir hlutina róast töluvert um leið og menningarnótt er lokið.

Kex hostel stendur við Skúlagötu í miðborg Reykjavíkur, en þar er rekið bæði hótel og veitingastaður. „Við erum með erlenda gesti á efri hæðinni og þeir koma mikið niður og fá sér sæti úti á palli. Meirihluti gesta okkar er þó Íslendingar,“ segir Geir Þorvaldsson, vaktstjóri á bar Kex hostels.

Geir segir veðrið eiga einhvern þátt í aðsókn í mat og drykk, en hann segir staðinn þó ekki finna fyrir miklum mun. „Törnin byrjar fyrr þegar veðrið er gott. Ef veðrið er slæmt færir fólk sig bara inn,“ segir Geir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert