Eldar loguðu í Tunguskógi

mbl.is/Eggert

Litlu mátti muna að varðeldur sem var kveiktur á tjaldsvæðinu í Tunguskógi við Ísafjörð færi úr böndunum í nótt. Enginn hafði eftirlit með bálinu sem var orðið nokkuð mikið þegar lögreglumenn áttu leið fram hjá svæðinu. Þegar þeim tókst ekki að slökkva eldinn var slökkviliðið ræst út.

Lögreglan á Ísafirði segir að lögreglumennirnir hafi í fyrstu reynt að slökkva eldinn með handslökkvitækjum. Það hafi hins vegar ekki gengið og því hafi verið óskað eftir aðstoð slökkviliðsins. Atvikið átti sér stað um kl. fjögur í nótt.

Fjölmenni gistir á tjaldsvæðinu og þá eru bústaðir í nágrenninu. Lögreglan segir að enginn hafi verið við eldinn þegar lögreglu bar að garði. Það liggur því enginn sérstakur undir grun um að hafa kveikt hann.

Lögreglan gerir aðfinnslur við það að svo virðist sem tjaldsvæðið hafi verið án eftirlits um nóttina því þetta var ekki eini eldurinn sem slökkvilið og lögreglan urðu að slökkva í skóginum í Tungudal. Hinir eldarnir voru þó minniháttar, en víða var búið að breyta ferðagrillum í varðelda við tjöld á svæðinu.

Þá segir lögreglan, að sem betur fer hafi verið logn því allur gróður sé afar þurr og því auðvelt fyrir eldinn að breiðast út.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert