Telur ummælin ala á fordómum

Talið er að um 7-10% barna glími við ADHD og …
Talið er að um 7-10% barna glími við ADHD og 4,5% fullorðinna. mbl.is/ÞÖK

Stjórn ADHD samtakanna segir ofvirkni- og athyglisbrest hafa áhrif á líf mörg þúsund Íslendinga og umræða um að rót sjúkdómseinkennanna geti legið í smáum áföllum eða röngu mataræði, sé til þess fallin að skaða málstað einstaklinga með ADHD og ekki til þess fallin að auka skilning og stuðning innan samfélagsins.

Þetta kemur m.a. fram í yfirlýsingu frá stjórn ADHD samtakanna í tilefni af viðtali við Grétu Jónsdóttur uppeldisráðgjafa sem birtist á mbl.is í fyrradag, en samtökin telja viðtalið ala á fordómum. Gréta sagði í viðtalinu að börn væru oft ranglega greind með ADHD og að einkennin sem þau hafi geti átt við um annað, s.s. áfallastreituröskun. Drífa Björk Guðmundsdóttir, doktor í klínískri sálfræði og stjórnarmaður í ADHD samtökunum, segir þetta ekki í takt við þá þekkingu og reynslu sem hún hafi aflað sér um áfallastreituröskun.

„Með þá þekkingu sem ég hef á áfallastreitu bæði fullorðinna og barna finnst mér þetta nú ansi stór og að mörgu leyti hreinlega röng fullyrðing,“ segir Drífa. „Frumskilyrði þess að maður greinist með áfallastreitu er að maður hafi upplifað eða orðið vitni að einhverjum atburði sem fól í sér ógn við líf eða limi manns sjálfs eða annarra og að maður hafi upplifað yfirþyrmandi ótta og hjálparleysi þegar atburðurinn átti sér stað. Ég hef aldrei heyrt að áfall sem foreldri hafi upplifað jafnvel áður en barn fæðist yfirfærist yfir á barnið, líkt og Gréta heldur fram. Hins vegar geta börn verið kvíðin og hrædd ef foreldrarnir eru með áfallastreituröskun og geta ekki sinnt foreldrahlutverkinu sem skyldi af þeim sökum. Þótt óróleiki og einbeitingarskortur séu einkenni þunglyndis, kvíða og áfallastreitu eru nú yfirleitt önnur einkenni sem eru ríkjandi í áfallastreitu og sem ekki eru til staðar í sama mæli í kvíða, þunglyndi og ADHD, s.s. það að endurupplifa áfallið aftur og aftur hvort sem er í gegnum leik, teikningar, martraðir eða annað og forðast aðstæður sem minnt getur á áfallið.“

ADHD samtökin segjast ekki ætla að fullyrða að áföll geti ekki haft áhrif á ADHD einkenni einstaklinga, en að vanda þurfi umfjöllun af þessu tagi og varast að koma fram með alhæfingar. „Slík umræða getur skaðað málstað einstaklinga með ADHD sem oftar en ekki þurfa að berjast fyrir skilningi og stuðningi.“

ADHD samtökin benda á að sérfræðingar og fræðimenn á sviðum heilbrigðis- og félagsvísinda víðs vegar um heiminn hafa með fjölmörgum vísindalegum rannsóknum sýnt fram á að röskunin er raunveruleg. ADHD sé skilgreint sem röskun á taugaþroska sem birtist í formi athyglisbrests, ofvirkni og hvatvísi. 

Þau taka ennfremur fram að miklar kröfur séu gerðar til þeirra sem greina ADHD hér á landi. „Þannig að hver sem er getur ekki tekið að sér greiningu með því að titla sig sem meðferðaraðila eða sérfræðing,“ segir í yfirlýsingu samtakanna.

Nánari upplýsingar um ADHD og ADHD samtökin má finna á heimasíðu samtakanna hér. Þar er einnig að finna yfirlýsingu þeirra í heild.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert