„Ákveðinn í að vera ekki síðastur“

Arnar Helgi var langt frá því að vera síðastur að …
Arnar Helgi var langt frá því að vera síðastur að marklínunni, en um 199 hlauparar komu í mark á eftir honum.

Meðal þeirra sem unnu hvað stærst afrek í Reykjavíkurmaraþoni síðastliðinn laugardag var án efa Arnar Helgi Lárusson sem fór heilt maraþon í hjólastól. Arnar Helgi fór 42,2 kílómetrana á 5:08 í venjulegum innihjólastól.

Aðspurður segist Arnar sáttur með dagsverkið. „Ég er rosalega ánægður með þetta, en ég hef stefnt á maraþonið í 3 ár og undirbjó mig markvisst fyrir það í sumar,“ segir Arnar Helgi. Hann setti sér þó hófsöm markmið. „Ég stefndi að því að ná mældum tíma, en tíminn er aðeins mældur fram að 6 klukkustundum og 20 mínútum,“ segir Arnar sem náði því markmiði léttilega. „Ég var líka búinn að ákveða að ég ætlaði ekki að vera síðastur.“ Hann náði því markmiði að sama skapi, en Arnar Helgi fór maraþonið hraðar en um 199 hlauparar sem fóru vegalengdina á tveimur jafnfljótum.

Arnar fór maraþonið ekki á sérútbúnum hjólastól. „Þetta er venjulegur, óbreyttur innihjólastóll. Þess vegna varð ég að horfa vel fram fyrir mig allan tímann því minnsta steinvala hefði getað sprengt dekkin eða valdið því að hann ylti,“ segir Arnar.

Lenti í slysi fyrir 10 árum

Hann lenti í mótorhjólaslysi fyrir 10 árum sem olli því að hann lamaðist fyrir neðan bringu. „Ég hef þó fullan styrk í höndunum sem skiptir gríðarlegu máli,“ segir Arnar Helgi.

Eins og gefur að skilja liggur mikill undirbúningur að baki afreki sem þessu. „Ég æfði mikið í sumar, fór æfingahringinn minn sem er 15 km þrisvar í viku auk þess sem ég lyfti 5 sinnum í viku,“ segir Arnar Helgi. „Þetta eru auðvitað allt aðrir vöðvar en hlauparar nota, í handleggjunum er mikið um litla vöðva sem mikið tekur á við áreynslu af þessu tagi,“ segir Arnar. „Ég hætti þó að lyfta vikuna fyrir hlaupið og hafði þá ekki ýtt mér í einhverjar vikur til að hvíla,“ segir Arnar. Hann fann vel fyrir afleiðingunum af hlaupinu síðustu daga. „Mestu harðsperrurnar voru á sunnudagsmorgninum, en ég er furðu góður miðað við átökin og í raun miklu betri en ég hafði átt von á,“ segir hann.

Svolítið keppnisskap

Um var að ræða fyrsta skipti sem Arnar Helgi tekur þátt í skipulögðu götuhlaupi. „Og fyrsta skipti sem ég tek þátt í einhverri íþrótt ef út í það er farið,“ segir Arnar sem ræðst því ekki á garðinn þar sem hann er lægstur. Blaðamaður undrast að hann skuli byrja götuhlaupaferilinn á heilu maraþoni frekar en að fara styttri vegalengdir. „Ég vissi fyrir víst að ég gæti farið 10 kílómetra, en ég hafði aldrei farið lengra en 20 kílómetra í einu áður. Það varð að vera einhver áskorun í þessu,“ segir Arnar Helgi og hlær.

Arnar segist þó hafa beðið eftir veðurspánni fram á síðustu stundu til að tryggja að hugmyndin væri yfirleitt möguleg. „Ég var ekkert að auglýsa þetta því ég vissi að ef það yrði rigning og aðstæður slæmar þá gæti þetta ekki orðið að raunveruleika. Ég vonaði að það yrði gott veður og það gekk sem betur fer eftir,“ segir Arnar.

Aðspurður hvaðan hann sæki hvatann að þolraun sem þessari segir Arnar hann koma að innan. „Maður er alltaf að reyna að vera betri maður, tileinka sér heilbrigðan lífsstíl og hreyfa sig. Þegar maður byrjar að stunda hreyfingu vekur það hjá manni ákveðna fíkn í að verða sífellt betri,“ segir Arnar Helgi. Inntur eftir því hvort hann sé keppnismaður segir hann svo vera. „Já, ég held það, það er svolítið keppnisskap í mér,“ segir hann.

Lenti á vegg við 25 kílómetra

Arnar hefur náð gríðarlegum árangri í þjálfun sinni síðustu ár. „Fyrir um þremur árum tók mig 3 klukkustundir að fara 15 kílómetra æfingahring. Með markvissum æfingum náði ég því niður í um 1:45 klst,“ segir Arnar en í Reykjavíkurmaraþoni fór hann 10 kílómetra á 1:03 og hálfmaraþon (21,1 km) á 2:22.

Maraþonið gekk þó ekki þrautalaust fyrir sig. „Ég lenti hreinlega á vegg í kringum 25 kílómetrana. Þá stoppaði ég tvisvar og hélt hreinlega að eitthvað hefði flækst í dekkin því ég rann ekkert áfram. Ég fann líka fyrir magaverkjum, mikill hiti var á þessum tímapunkti og allar litlar brekkur voru orðnar að fjöllum. Svo þegar ég fór að nálgast 30 kílómetrana hugsaði ég sem svo að í raun væri bara einn æfingahringur eftir og þá léttist allt aftur,“ segir Arnar Helgi. Kona Arnars, Sóley Bára Garðarsdóttir, hjólaði með honum allan tímann. „Mikill stuðningur var í því,“ segir Arnar.

Hann segist ekki ætla aftur í maraþon í bráð. „Ég hugsa að ég gæti ekki farið maraþon aftur á næstunni, enda tekur það langan tíma að jafna sig,“ segir hann.

Arnar vill koma á framfæri þökkum til aðstandenda Reykjavíkurmaraþons. „Ég er rosalega ánægður með þá sem stóðu að þessu hlaupi, ég fékk mjög góð viðbrögð þegar ég hafði samband viku fyrir hlaup og sagði þeim frá áformum mínum,“ segir Arnar. 

„Ég var búinn að ákveða að vera ekki síðastur,“ segir …
„Ég var búinn að ákveða að vera ekki síðastur,“ segir Arnar Helgi Lárusson sem fór heilt maraþon á hjólastól í Reykjavíkurmaraþoni síðastliðinn laugardag.
Arnar Helgi var eins og gefur að skilja ánægður með …
Arnar Helgi var eins og gefur að skilja ánægður með árangurinn, en hann fór maraþonið á 5:08 klukkustundum. Kona Arnars, Sóley Bára Garðarsdóttir hjólaði með honum alla leiðina.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert