Fjölskyldur hvattar til að lesa saman

Í dag er Alþjóðadagur læsis og tilvalið að taka sér …
Í dag er Alþjóðadagur læsis og tilvalið að taka sér bók í hönd. mbl.is/Kristinn

Alþjóðadagur læsis er í dag, laugardaginn 8. september og af því tilefni eru fjölskyldur landsins hvattar til að skipuleggja 30 mínútna fjölskyldulestrarstund og lesa saman. 

Frá árinu 1965 hafa Sameinuðu þjóðirnar helgað þennan dag málefnum læsis og í ár taka Íslendingar þátt í fjórða skiptið. Ráðstefna um lestur og læsi verður haldin um á vegum Háskólans á Akureyri og þar verða flutt ýmis erindi sem varða lestur og lestrarkennslu.

Ingibjörg Auðunsdóttir, sérfræðingur við miðstöð skólaþróunar HA og einn aðstandenda ráðstefnunnar, segir að þar sem dag læsis beri upp á laugardag séu skólar hvattir til að gera deginum hátt undir höfði á næstunni.

„En við erum ekki síst að hvetja foreldra til að nýta þennan dag og gera eitthvað öðruvísi með börnum sínum sem lestur varðar á morgun en þau eru vön.“ Sem dæmi um það nefnir Ingibjörg spil, þar sem lesa þarf texta til að geta haldið áfram, ráða saman krossgátur og ræða um bækur.

Er þörf á þessum degi? „Já, það skiptir máli að vekja athygli á mikilvægi læsis. Fjöldi rannsókna sýnir að þátttaka foreldra í námi barna sinna styrkir þau í lestri. Finnskir foreldrar lesa til dæmis mikið fyrir börn sín og þar eru börn almennt með mjög góðan lesskilning,“ segir Ingibjörg.

Hvað getum við bætt hér á landi? „Það er til dæmis  dapurt að heyra hversu léleg lestrarkunnátta margra stráka er og hversu illa þeir koma út í lesskilningi. Að fjórði hver drengur lesi sér ekki til gagns er grafalvarlegt mál og það er eitthvað sem þarf að horfa á.“

Nokkur ráð frá Ingibjörgu til að efla lestraráhuga barna. Ráðin kallar hún „Það sem allir foreldrar geta gert“:

• Gefið barninu tíma
• Hvatt barnið áfram þegar það reynir að lesa og skrifa
• Séð til þess að á heimilinu hafi barnið aðgang að blýöntum, litum, pappír og stöfum úr
plasti sem hægt er að leika sér með
• Hjálpað barninu við að púsla einföld orð
• Skrifað einföld orð í sand, snjó eða á annan hátt
• Skrifað nafn barnsins á hluti sem það á
• Leyft barninu að fylgjast með fullorðnum skrifa
• Lesið fyrir og með barninu á kvöldin fyrir svefninn
• Tekið þátt í leik barnsins með því að skrifa lista eða annað viðeigandi sem tengist
leiknum
• Hjálpað barninu að búa til myndskreytta bók og ef áhugi er fyrir hendi að skrifa texta
við myndirnar
• Sagt sögur í bílferðum eða í strætó
• Hlustað á barnið lesa heimalesturinn
• Lesið fyrir og með barninu, jafnvel þó barnið sé farið að lesa sjálft – rætt efni textans
og virkjað börnin í lestrinum. Sett efnið í samhengi við reynslu barnsins og daglegt líf.
• Áríðandi er að finna út áhugasvið barnsins og hjálpa því að leita að bókum og
tímaritum um efnið. Mikilvægt er að sýna áhugamáli barnsins þá virðingu að það
skynji einlægan áhuga foreldrisins á efninu
• Farið á bókasafnið vikulega og sjá til þess að gott aðgengi að bókum eða tímaritum sé
alltaf við höndina
• Sótt hljóðbækur á bókasafnið

Þorkell Þorkelsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert