Rafmagnsskömmtun hætt á NA-landi

Gríðarlegt tjón varð á rafmagnslínum í Mývatnssveit.
Gríðarlegt tjón varð á rafmagnslínum í Mývatnssveit. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Viðgerðarmönnum á vegum Landsnets tókst að ljúka viðgerð á flutningslínu sem liggur frá Laxárvirkjun að Kópaskeri um kl. 4 í nótt. Það þýðir að íbúar á Kópaskeri, Þórshöfn, Raufarhöfn, Bakkafirði og Kelduhverfi þurfa ekki lengur að treysta á rafmagn frá díselrafstöðvum. Rafmangsskömmtun hefur verið á þessum stöðum í þrjá sólarhringa.

Guðmundur Ingi Ásmundsson, aðstoðarforstjóri Landsnets, segir að Kröflulína 2 sé enn biluð en áætlað sé að viðgerð á henni taki tvo sólarhringa. Bilunin kemur ekki í veg fyrir að hægt sé að flytja rafmagn til notenda, en þegar tekist hefur að gera við hana er búið að hringtengja byggðalínuna og orkuöryggi eykst.

Mikil vinna eftir við endanlega viðgerð

Ásbjörn Gíslason, hjá RARIK, segir að eftir sé að tengja átta spennistöðvar í Mývatnssveit, en það þýðir að 10-12 bæir eru enn rafmagnslausir. Unnið verði þar áfram að bráðabirgðaviðgerð í dag. Eftir sé að gera við á þremur stöðum utan Mývatnssveitar, en einnig séu nokkur eyðibýli án rafmagns.

Þó búið sé að koma rafmagni á bæi er mikil vinna eftir hjá starfsmönnum RARIK því aðeins er gert við til bráðabirgða. Viðgerðin fellst í því að lagður er stengur á jörðina.

„Við erum með strengi á stórum parti í Mývatnssveit sem liggja ofan á jörðinni. Við getum ekki haft þetta svona lengi. Við þurfum í raun og veru að endurbyggja kerfið að stórum hluta í Mývatnssveit.  Það mun taka talsverðan tíma að laga línuna og koma þessu í það horf að kerfið standi af sér veturinn. Það má búast við rafmagnstruflunum hjá Mývetningum næstu vikurnar meðan við erum að ljúka viðgerð,“ segir Ásbjörn.

Ásbjörn segir að menn eigi eftir skoða betur hvernig staðið verði að fullnaðarviðgerð og hvort hluti leiðarinnar verði tengdur með jarðstrengjum. Háspennukerfi RARIK í dreifbýli er í heild um 8000 km. RARIK hefur unnið markvist að endurnýjun og styrkingu dreifikerfisins í dreifbýli með lagningu jarðstrengja frá árinu 1991 þegar mikið tjón varð á línum á Norðurlandi. Þá brotnuðu um 550 staurar og í áhlaupinu 1995 á fjórða hundrað staura. Árangurinn er sá að nú hefur nær helmingur loftlína vikið fyrir jarðstrengjum.

Ásbjörn segir að þetta sé erfitt svæði og hluti þess sé hraun þar sem erfitt er að leggja jarðstrengi. Þá þurfi að hafa í huga að það sé kominn vetur á Norðausturlandi. Þetta verði allt skoðað betur næstu daga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert