„Þarna sé ég tvær á lífi“

Kindur við Gæsafjöll hafa verið að krafla sig upp úr …
Kindur við Gæsafjöll hafa verið að krafla sig upp úr snjónum síðustu daga. Mynd var tekin við Þeistareyki fyrir nokkrum dögum. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Þarna sé ég tvær á lífi,“ sagði Birgir Hauksson, bóndi á Hellu í Mývatnssveit, þegar mbl.is ræddi við hann í dag, en Birgir var þá ásamt konu sinni að leita að fé við Gæsafjöll, sunnan við Þeistareyki í S-Þingeyjasýslu. Birgir segir að fé hafi síðustu daga verið að krafla sig upp úr snjónum.

Bændur á Norðurlandi eru enn að leita að fé sem fennti á kaf í óveðrinu 10. september. Birgir leitaði samfleytt í 14 daga fyrst á eftir, en í gær og fyrradag gerði hann hlé á leitinni því hann átti eftir að slá seinni slátt á nokkrum túnum. Hann og Steinunn Stefánsdóttir, kona hans, fóru síðan aftur af stað í dag.

Ærnar koma upp úr snjónum þegar þiðnar

Þegar mbl.is náði í Birgi í dag var hann búinn að finna eina kind dauða. Hann fór hins vegar með 17 mönnum í leit í Gæsafjöllum á sunnudaginn og kom heim með 60 kindur.

„Þetta var fé var að skríða upp úr fönn. Ég er með hunda og er að reyna að athuga hvort ég finn eitthvað meira sem er koma upp úr snjónum.“

Birgir sagði að féð hefði verið í misjöfnu ástandi. Sumt, sem hefði komið upp úr snjónum fyrir nokkrum dögum, hefði verið í þokkalegu ástandi, en annað, sem var grafið úr fönn deginum áður, hefði verið mjög lélegt. Sumar af þessum kindum höfðu verið fastar í fönn í tvær vikur.

„Margt af því sem við fundum um helgina var orðið mjög lélegt, enda búið að liggja í svelti í þetta langan tíma. Þarna voru lömb sem hefðu átt að vera 38-39 kíló, en voru ekki nema 27 kíló.“

Kindurnar sem Birgir hefur verið að finna fá hey en eru síðan settar út á tún. Það þýðir hins vegar ekki að gefa lömbum hey því það getur tekið nokkra daga að kenna þeim að éta inni. Það þarf auk þess að fara varlega í að fóðra lömbin því lömb sem éta of mikið eftir langvarandi svelti fá skitu og geta jafnvel drepist.

Spurning um að finna ærnar áður en þær drepast úr hungri

Birgir sagði að þær kindur sem hann hefði fundið dauðar hefðu kafnað í snjónum. Snjórinn væri blautur og þungur. „Þær sem ekki liggja undir barði eða hafa eitthvað til að hlífa sér við þunganum drepast. Þær sem liggja undir barði og lifðu af fyrstu dagana geta verið lifandi og eru lifandi enn. Það er bara spurning hvort þær komast sjálfar upp eða hvort þær drepast úr hungri með tímanum.“

Birgir sagðist ætla að halda áfram að leita næstu daga. Talsvert af snjónum hefði tekið upp og það væri slæmt að vita til þess að það væri að opnast niður á kindurnar en þær hefðu sig ekki upp. Miklir skaflar eru enn í fjöllunum, sérstaklega í giljum og skorningum. Birgir sagði að það væsti ekki um það fé sem kæmist til að kroppa í auða jörð.

Það er spáð kólnandi veðri í lok vikunnar. Birgir telur samt að það sé enn von um að finna meira á lífi. „Sauðkindin er ótrúlega seig. Þær eiga eftir að brjóta sér leið upp úr snjónum alla þessa viku og langt fram í næstu viku. Eftir næstu viku fer að síga á seinni hlutann hjá þeim.“

Vantar 38 ær og 71 lamb

Birgir var með 700-800 fjár á afrétti í sumar. Hann vantar enn 38 ær og 71 lamb, en það eru um 15% fjárins. Birgir sagði að þetta væru mikil afföll ef þetta væri allt dautt. Verst finnst honum að missa ærnar því þær skili arði næstu árin.

Enn er verið að leita á Þeistareykjasvæðinu. Talsvert af fé fannst þar í gær og menn héldu áfram að leita í dag. Birgir sagði að búið væri að fara yfir allt svæðið og sumt oftar en einu sinni. „Vandamálið er að þetta svæði var ósmalað þegar veðrið skall á. Ær og dilkar voru saman og fé var mjög dreift eins og það er á sumrin. Á haustin þegar búið er að smala og búið er að taka lömbin undan ánum heldur féð sig saman í hópum. Við höfum því verið að leita að kindum sem eru um allt á gríðarlega stóru svæði. Afraksturinn eftir daginn er því ekki endilega mikill þó að maður hafi verið að paufast í marga klukkutíma.“

Suma vantar hey

Nokkrir bændur á Norðausturlandi eru heylitlir, en sumarið var þurrkasamt og spretta víða léleg. Birgir sagðist hins vegar vera vel settur. „Ég er með ágætis heyforða fyrir veturinn. Svo hefur náttúrlega fækkað talsvert í stofninum í þessu veðri sem gekk yfir, þannig að heyforðinn verður meiri fyrir vikið.“

Ertu ekki orðinn þreyttur eftir að hafa verið á göngu í tvær vikur?

„Jú, þetta tekur á. Maður reynir að sofa vel á nóttunni. Svo hefur maður gott af hreyfingunni. Maður gleðst líka yfir hverri kind sem finnst á lífi,“ sagði Birgir áður hann snéri sér að því að kanna ástandið á þeim tveimur kindum sem hann fann meðan á samtalinu stóð.

Sigrún Óladóttir bóndi í Brúnahlíð rekur kindur sem fundust á …
Sigrún Óladóttir bóndi í Brúnahlíð rekur kindur sem fundust á Þeistareykjum fyrir nokkrum dögum. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
Myndin er tekin af smölun við Þeistareyki fyrir nokkrum dögum. …
Myndin er tekin af smölun við Þeistareyki fyrir nokkrum dögum. Á sleðanum er Kolbeinn Kjartansson bóndi í Hraunkoti. mvl.is/Skapti Hallgrímsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert