Tófan vísaði á lifandi lamb

Enn er að finnast fé sem var fast í fönn. …
Enn er að finnast fé sem var fast í fönn. Myndin er úr myndasafni. Björgunarsveitin Ársól Reyðarfirði.

Bændur í Skagafirði hafa í dag og í gær verið við fjárleitir. Smári Borgarson, bóndi í Goðdölum, fann m.a. í gær lamb sem hann gróf lifandi úr fönn, en það hefði verið þar fast í 18 daga. Ástæðan fyrir því að lambið fannst var að hann sá ummerki eftir tófu sem hafði drepið kind sem var föst í fönninni á sama stað.

Það fé sem Smári fann í gær hafði verið í fast í fönn í 18 daga, en á morgun verða þrjár vikur síðan óveðrið skall á. „Ég fann í gær bæði dautt og lifandi fé og eins kindur sem greinilega höfðu verið að koma upp úr snjónum,“ sagði Smári.

„Það sem mér hefur komið mest á óvart er að við höfum verið að finna fé á stöðum sem ég hefði ekki látið mér detta í hug að neinar kindur væru. Við höfum t.d. verið finna fé upp á háfjalli. Við fundum í gær fyrir tilviljun lifandi lamb sem var á miklu dýpi. Ástæðan fyrir því að hún fannst var að við sáum ummerki eftir tófu sem hafði étið kind sem var við hliðina á lambinu. Tófan tók hins vegar ekki þetta lamb. Lambið kemur til með að spjara sig, en það var búið að leggja mikið af,“ sagði Smári.

Smári sagði greinilegt að féð hefði verið að hrekjast langa leiðir undan veðrinu áður en það grófst í fönn.

Smári sagði að hann hefði þurft að grafa vel á annan metra niður í skaflinn áður en hann náði þessu lambi upp. Þó væri snjórinn búinn að minnka mikið. Lambið hefði því verið á margra metra dýpi þegar veðrinu slotaði fyrir þremur vikum. Þrjár kindur voru á þessum stað, tvær dauðar en ein lifandi. Smári gróf fleiri kindur úr fönn í gær.

Björgunarsveitir hafa aðstoðað bændur í Skagafirði í dag og í gær við fjárleitir. Smári sagðist reyndar hafa afþakkað aðstoð því snjórinn hefði minnkað það mikið að hægt væri að komast um landið á hestum.

Smári sagði að þessi mikla leit um helgina væri væntanlega síðasta stóra átakið til að bjarga því fé sem enn er fast í fönn. Menn reyndu hins vegar áfram að ná því sem enn er gangandi uppi á fjöllum.

Smári sagði misjafnt milli bæja hversu bændur hefðu orðið fyrir miklum fjárskaða. Sumstaðar væri tjónið mjög mikið.

Kveður dauðu kindurnar

Bændur í Þingeyjarsýslu hafa einnig notað helgina til leit að fé með aðstoð björgunarsveita. Friðrika Sigurgeirsdóttir, bóndi á Bjarnastöðum í Bárðardal, segir að búið sé að finna um 20 dauðar ær á Bjarnastöðum og á bænum Rauðafelli sem er þar við hliðina á. Enn vantar hins vegar 20-30 kindur.

Friðrika birti á Facebook-síðu sinni mynd af kindum sem fundust dauðar í einum skafli. Þar voru fimm fullorðnar ær dauðar. Á myndinni er dóttir hennar, Hjördís Ólafsdóttir, að kveðja ær sem hún átti.

Fjallað er nánar um tjón bænda á Bjarnastöðum í frétt á vefnum 641.is.

Hjördís Ólafsdóttir frá Bjarnastöðum grefur upp fimm dauðar ær.
Hjördís Ólafsdóttir frá Bjarnastöðum grefur upp fimm dauðar ær. Ljósmynd/Friðrika Sigurgeirsdóttir
Myndin er frá fjárleit á Þeistareykjasvæðinu.
Myndin er frá fjárleit á Þeistareykjasvæðinu. Björgunarsveitin Ársól Reyðarfirði.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert