23% níu ára barna of þung

Öll börn þurfa að hreyfa sig og borða hollan mat, …
Öll börn þurfa að hreyfa sig og borða hollan mat, óháð því hvort þau eru í kjörþyngd eða ekki. mbl.is/Arnaldur Halldórsson

Samkvæmt nýjustu mælingum skólaheilsugæslu höfuðborgarsvæðisins frá árinu 2012 voru 4,8% 9 ára barna á höfuðborgarsvæðinu of feit, 18,5% þeirra of þung eða samtals rúmlega 23%. Þetta kemur fram í talnabrunni Landlæknis.

Þar kemur fram að fyrri rannsóknir sýna mikla aukningu á hlutfalli 9 ára barna yfir kjörþyngd á síðari hluta 20. aldar. Þannig var tæplega 1% 9 ára barna í Reykjavík of feitt árið 1958, eða samtals 6,6% yfir kjörþyngd.

Árið 1998 voru hins vegar 5% barna á sama aldri mæld of feit en 23,7% níu ára barna töldust vera yfir kjörþyngd. Mælingar undanfarinn áratug gefa hins vegar ekki tilefni til þess að ætla að merkjanleg aukning hafi orðið á hlutfalli 9 ára barna yfir kjörþyngd.

Í talnabrunninum kemur fram að mikilvægt sé að umræðan um þyngd skólabarna skyggi ekki á umræðu um mikilvægi hollrar fæðu fyrir börn og nægrar hreyfingar.

„Öll börn þurfa að hreyfa sig og borða hollan mat, óháð því hvort þau eru í kjörþyngd eða ekki. Hluta af neikvæðum afleiðingum offitu má rekja til þess að börnum yfir kjörþyngd líður oft illa vegna neikvæðra viðhorfa, fordóma og mismununar vegna holdafars í samfélaginu. Virðingar og umburðarlyndis skal því ávallt gætt þegar rætt er um líkamlegt útlit fólks,“ segir á vef landlæknis.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert