Ekki verið að einkavæða skólakerfið

Margrét Pála Ólafsdóttir.
Margrét Pála Ólafsdóttir. Ómar Óskarsson

Margrét Pála Ólafsdóttir, stofnandi Hjallastefnunnar, vonar að bréf menntamálaráðuneytisins til Tálknafjarðarbæjar um að ólöglegt sé að mennta börnin undir merkjum Hjallastefnunnar eigi sér ekki pólitískar rætur.

„Fólk er að spyrja mig hvort pólitík sé að spila inn í þetta mál en því trúi ég engan veginn. Skólamál eru einfaldlega samfélagsmál okkar allra og hvorki mega né eiga að vera flokkapólitísk. Það er misskilningur að áætla sem svo að ef einhver sjálfstæður aðili komi að skólamálum, þá sé verið að einkavæða skólakerfið með alvarlegum afleiðingum. Svo er engan veginn,“ segir Margrét Pála. 

„Foreldrarnir hér eru ekki að borga meira en áður og engin skólagjöld tekin. Hér er engin að hagnast nema að Hjallastefnan og Tálknafjarðarbær fá þann ágóða að þróa skólastarf í sameiningu og góðri samvinnu. Ég harma innilega ef einhver pólitískur misskilningur sé á ferð en vil ekki lúta svo lágt að ætla nokkrum að svo sé,“ segir Margrét Pála.

Undrandi á bréfinu

Í dag barst Tálknafjarðarbæ bréf frá menntamálaráðuneytinu um að samningur um rekstur Hjallastefnunnar í bænum stæðist ekki lög. Þar kemur fram að samkvæmt lögum eigi hvert sveitarfélag að reka eigin grunnskóla. Lögin heimili ekki að sveitarfélag feli einkaaðila að reka eina grunnskóla sveitarfélagsins.  

„Þessi yfirlýsing kom mér mikið á óvart. Tálknafjarðarskóli er ekki sjálfstætt starfandi skóli, heldur er ég og Hjallastefnan að vinna með bænum að skólastarfi. Bærinn velur einfaldlega að nota þessa þjónustu okkar í sínu skólastarfi og vitaskuld hefur Tálknafjarðarskóli sitt starfsleyfi“ segir Margrét Pála. Hún segir að hún veiti aðkeypta þjónustu og það sé samkvæmt umboði og ábyrgð bæjarins sem Hjallastefnan reki skólann og undir stjórn viðeigandi yfirvalda Tálknafjarðar.


Er ekki sjálfstæður skóli

Hjallastefnan rekur nú þegar skóla í Garðabæ, Hafnarfirði og Reykjavík sem eru viðurkenndir af menntamálaráðuneytinu. Hins vegar viðurkennir það Hjallastefnuna ekki sem rekstraraðila í Tálknafirði þar sem þar sé enginn annar skóli.

„Ég ítreka að við rekum ekki sjálfstæðan skóla hér á Tálknafirði og höfum því vitaskuld ekki sótt um slíkt leyfi hérna. Við höfum talið að það sé ekkert sem bannar eða bannar ekki þá leið sem Tálknafjörður fer í þessum málum. Að mati lögfræðinga Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem skoðað hafa þessi mál, er ekkert í skólarammanum í dag sem bannar sveitarfélaginu að leita að samstarfsaðila með þeim hætti sem Tálknafjörður gerði,“ segir Margrét. 

Bærinn ræðir við ráðuneytið

Hún á von á því að málið verði rætt á næstunni og er þess fullviss að farsæl lausn náist í málinu.  „Á næstunni mun ég halda áfram að stýra starfi skólans enda er okkar eina áhugamál að byggja upp gott skólastarf. Síðan er það bæjarins að ræða áfram við ráðuneytið eins og gert hefur verið frá því í vor,“ segir Margrét Pála.


Sjá einnig Hjallastefnan sé ekki eini skólinn

mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert