Samstaða vill innkalla aflaheimildir

Sigurbjörn Svavarsson, annar varaformaður Samstöðu flutti tillögu um sjávarútvegsmál á …
Sigurbjörn Svavarsson, annar varaformaður Samstöðu flutti tillögu um sjávarútvegsmál á landsfundi Samstöðu um síðustu helgi. Kristján Jóhann Matthíasson.

Samstaða vill innkalla allar aflaheimildir og telur brýnt að lög og skipulag sjávarútvegsins verði endurskoðuð „til að draga úr samþjöppun eignarhalds og tryggja opna og heilbrigða atvinnugrein til framtíðar.“

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samstöðu.

Þar segir að stefnumótandi ályktun um sjávarútvegsmál hafi verið samþykkt á landsfundi Samstöðu um síðustu helgi. „Þjóðinni verði tryggður eignarréttur á auðlindinni og njóti arðs af nýtingu hennar. Brýnt er að við ákvarðanir um nýtingu nytjastofna verði sjálfbærni og hagkvæmni höfð að leiðarljósi.“

Samstaða vill að samningar verði gerðir um nýtingarrétt til þeirra sem starfa í greininni og að svokallað nýtingargjald renni í sérstakan sjóð sem í upphafi taki til sín skuldsettar aflaheimildir, m.a. til að tryggja jafnræði milli þeirra sem hafa skuldsettar aflaheimildir og þeirra sem fengu þær endurgjaldslaust.  

„Við gerð nýtingarsamninga verði tekið mið af rétti sjávarbyggða til sjósóknar og svæðisbundnar tekjur greinarinnar renni í meira mæli til viðkomandi svæða,“ segir í tilkynningunni frá Samstöðu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert