Fulltrúar Sunndal mæta á morgun

Hátt í þrjátíu manna sendinefnd frá Sunndal í Mið-Noregi kemur til landsins á morgun en þá fer fram kynningarfundur í Hörpu um atvinnumöguleika í sveitarfélaginu. Á kynningunni verður hægt að ræða beint við yfirmenn fyrirtækja í Sunndal og panta viðtöl eftir fundinn.

Eins og greint var frá fyrr í mánuðinum er þörf á að ráða 20-30 manns til starfa í Sunndal og jafnvel fleiri, hjá sveitarfélaginu sjálfu og fyrirtækjum þess. Þar vantar t.d. kennara, verkfræðinga, tannlækni, tæknifræðinga, framkvæmdastjóra, hjúkrunarfræðinga, vinnuvélastjórnendur, iðnaðarmenn og verkafólk.

Sunndal er í Mið-Noregi, 188 km sunnan við Þrándheim. Í Sunndal búa 7.200 manns, flestir í láglendisdölum eða meðfram fjörðunum sem ganga inn í fjalllenda þjóðgarðana þar. Stærsti bærinn Sunndalsøra er á mótum dalsins sjálfs og Sunndal-fjarðar en þar búa 4.500 manns.

Í tilkynningu um kynninguna er haft eftir Ståle Refstie, bæjarstjóra, að hann vonast til að geta fagnað Íslendingum því hann sé viss um að þeir falli inni í samfélagið og muni auðga það. Refstie verður með sérstaka kynningu á sveitarfélaginu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert